Sport

María vann alþjóðlegt svigmót í Noregi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
María Guðmundsdóttir.
María Guðmundsdóttir. Mynd/Skíðasamband Íslands
María Guðmundsdóttir vann í dag alþjóðlegt svigmót í Geilo í Noregi en hún er ásamt fleira landsliðsfólki í alpagreinum stödd í Noregi til að undirbúa sig fyrir Ólympíuleikana í Sochi sem fara fram í byrjun næsta árs.

María varð í 2. sæti eftir fyrri ferðina en hún var þá 8/100 á eftir efstu stelpunni. María átti hinsvegar frábæra seinni ferð og tryggði sér glæsilegan sigur. Heimastelpan Benedicte Oseid Lyche varð í öðru sæti og önnur norsk stelpa, Tonje Healey Trulsrud, varð þriðja. Trulsrud varð fyrst eftir fyrri ferðina.

„María gaf allt í botn í seinni ferðina og var með langbesta tímann og vann mótið með tveimur sekúndum, sem er gríðarlega mikið," segir í fréttatilkynningu frá Skíðasambandi Íslands.

Þrjár aðrar íslenskar skíðakonur voru að keppa á þessu móti. Erla Ásgeirsdóttir endaði í 8.sæti annan daginn í röð. Helga María Vilhjálmsdóttir, sem var í 5.sæti eftir fyrri ferðina, náði ekki að klára seinni ferðina í dag og hætti keppni. Einnig keppti Auður Brynja Sölvadóttir, frá Akueyri, en hún endaði í 19.sæti.

María endaði í fimmta sæti á svigmóti á sama stað í gær en Helga María náði þá ekki að klára fyrri ferð og Erla varð eins og áður sagði í áttunda sæti. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×