Innlent

Stórslasaðist er hún féll á steikarhníf

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Tíu ára gömul stúlka stórslaðaðist í gær þegar hún féll aftur fyrir sig, ofan á opna uppþvottavél, og lenti á oddhvössum steikarhníf. Sérfræðingur í barnaöryggi segir mikilvægt að huga jafnt að öryggi stálpaðra barna og smábarna.

Áhöldunum í uppþvottavélinni sem stúlkan féll á var snúið þannig að oddhvassir hlutir snéru upp. Hnífurinn stakkst fjóra sentímetra inn í bak stúlkunnar, rétt neðan við vinstra herðablað, og var skurðurinn rúmir tveir sentímetrar á breidd. 

Við þetta féll vinstra lungað saman. Þá hlaut hún talsverða innvortis blæðingu.

Stúlkan var flutt á bráðamóttöku Landspítalans. Nú rétt fyrir fréttir var hún færð af gjörgæsludeild en er enn undir nánu eftirliti.

Sigrún Þorsteinsdóttir, sérfræðingur í forvörnum hjá VÍS, segir ýmsar hættur vera í eldhúsinu sem vert er að horfa á. „Það er í raun og veru sama á hvaða aldri viðkomandi er. Slysin geta alltaf gerst og hætturnar leynast víða, hvort sem um er að ræða ungabörn, stálpuð börn eða gamalmenni,“ segir hún.

Sigrún telur að allt sem hægt sé að gera til að fyrirbyggja fallslys skili árangri, en það eru algengustu slys sem verða í heimahúsum.

„Það er nefnilega svo merkilegt að slysin gera í raun og veru boð á undan sér. Oft þarf ekki nema einfaldar breytingar eða tilfæringar til að gera varúðarráðstafanir sem skipt geta sköpum hvað varðar slysahættu. Til dæmis að láta allt sem er beitt snúa niður á við í uppþvottavélinni, gaffla, hnífa og ostaskera.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×