Innlent

Sögur Yrsu um lögmanninn Þóru í sjónvarpið

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Samningur hefur verið gerður um gerð sjónvarpsþáttaraðar sem byggð verður á glæpasögum Yrsu Sigurðardóttur um Þóru Guðmundsdóttur lögmann. Sigurjón Sighvatsson verður framleiðandi þáttanna.

„Það er erfitt að segja til um það hvenær tökur hefjast,“ segir Sigurjón. „Við erum komin með drög að fyrstu fimm þáttunum og ef við fáum endanlegt samþykkir vonast ég til þess að við komust í tökur haustið 2014 með það fyrir augunum að sýna þættina árið 2015.“

Hann segir bækurnar um Þóru henta vel til sjónvarps. Söguframvindan eða „plottin“ í bókunin séu mjög vel spunnin og persónan Þóra sé mjög sterk. Þetta sé lykill fyrir allt efni en ekki síst fyrir gott sjónvarpsefni.

„Við höfum ekki séð svona þátt í sjónvarpi áður. Þetta yrði alþjóðleg framleiðsla og sagan gerist á Íslandi og með íslenskum persónum. Ekki það að ég sé að finna upp hjólið,“ segir Sigurjón.

Ánægður með leikstjórann og meðframleiðandann

Sigurjón er ánægður með að hafa fengið leikstjórann Kathrine Windfield til að leikstýra þáttunum. Hún hefur meðal annars leikstýrt þáttum úr sjónvarpsþáttaröðunum Broen, Forbrydelsen og sjónvarpsmyndum eftir sögum Henning Mankell um Wallander lögregluforingja. Jafnframt er Sigurjón ánægður með að hafa fengið meðframleiðandann Peter Nadermann til liðs við sig. Hann er einn framleiðanda sjónvarpsþáttaraðanna Broen, Forbrydelsen og kvikmyndum gerðum eftir Millenium-þríleiks Stieg Larsson.

Gert er ráð fyrir að þættirnir eftir glæpasögum Yrsu Sigurðardóttur verði á ensku, með alþjóðlegum og íslenskum leikurum en tökur fari fram hér á landi.

Handritsdrög að fyrstu þáttunum liggja þegar fyrir, en Sveinbjörn I. Baldvinsson hefur unnið að handritunum í samstarfi við Sigurjón. „Við ætlum að fara í svona fimm og fimm sjálfstæða þætti eða til þess stendur vonin. Hver fimmþátta sjónvarpssería myndi fjalla um eina bók. Við byrjum á fyrstu bókinni sem heitir þriðja táknið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×