Innlent

Drógu hvorn annan á gúmmíslöngu

Samúel Karl Ólason skrifar
Mynd/Pjetur
Lögreglan á Vestfjörðum hafði afskipti af tveimur ungum mönnum, aðfaranótt föstudagsins 5. des. Þeir höfðu bundið band á milli bifreiðar og gúmmíslöngu og léku sér við að draga hvorn annan um götur Bolungarvíkur. „Vart þarf að fjölyrða um þá hættu sem slíku hátterni fylgir.“

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á Vestfjörðum. 

Þrír ökumenn voru kærðir fyrir hraðakstur í nágrenni Ísafjarðar í liðinni viku. Auk þess voru þrjú umferðaróhöpp tilkynnt lögreglu, öll þriðjudaginn 3. desember. Þar er um að ræða eitt minniháttar óhapp á Ísafirði, útafakstur og veltu í Hestfirði og útafakstur og veltu á Vestfjarðavegi í Reykhólasveit.

Þá var björgunarsveit frá Barðaströnd kölluð út til að aðstoða við að ná bíl sem var fastur í snjó á Dynjandisheiði lausum. Lögreglan hvetur vegfarendur til að afla sér upplýsinga hjá Vegagerðinni, í síma 1777, áður en hugað er að ferðum yfir heiðar á þessum árstíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×