Innlent

Flokksmenn velja fjóra efstu fulltrúa Samfylkingarinnar í Reykjavík

Heimir Már Pétursson skrifar
Mikil samstaða var um Dag B. Eggertsson til áframhaldandi setu í leiðtogasæti flokksins í Reykjavík.
Mikil samstaða var um Dag B. Eggertsson til áframhaldandi setu í leiðtogasæti flokksins í Reykjavík. mynd/daníel
Fulltrúaráð Samfylkingarinnar í Reykjavík samþykkti með naumum meirihluta á fundi í gærkvöldi að fjórir efstu fulltrúar flokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar næsta vor, verði valdir í flokksvali.

Ekki náðist samstaða um það innan stjórnar fulltrúaráðs Samfylkingarinnar hvaða leið skyldi farin við val á fulltrúum flokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar næsta vor og því lagði stjórnin til að valið yrði milli tveggja leiða á fundi í gærkvöldi. Annars vegar uppstillingu og hins vegar flokksvali, þar sem félagar í flokksfélögum í Reykjavík velja fulltrúa í fjögur efstu sætin.

Arnar Guðmundsson áheyrnarfulltrúi frjálslyndra jafnaðarmanna í fulltrúaráðinu var einn talsmanna flokksvalsins til að tryggja beina aðkomu flokksmanna að fulltrúavalinu, en 62 greiddu þeirri tillögu atkvæði en 58 studdu uppstillingu.

Vel var mætt á fund Samfylkingarinnar í Reykjavík í gærkvöldi og fylgdist fyrrverandi leiðtogi flokksins og forsætisráðherra vel með því sem fram fór.mynd/daníel
„Þar sem fannst ekki leið til að vera líkleg til að vera nógu skýr, fyrirsjánleg og líkleg til að skapa sátt um bæði framkvæmd og niðurstöðu, var það bein tillaga stjórnar að lagðar yrðu fram tvær tillögur og kosið á milli og það var tillaga stjórnarinnar í heild,“ segir Arnar.

Arnar heldur að sátt verði um þessa niðurstöðu þótt mjótt hafi verið á mununum í atkvæðagreiðslunni. Þannig að nú geta allir samfylkingarfélagar í Reykjavík kosið milli frambjóðenda?

„Jú í fjögur efstu sætin,“ segir Arnar. Restinni verður síðan stillt upp.

Flokksvalið mun fara fram í lok janúar en Dagur B. Eggertsson oddviti flokksins í Reykjavík hefur einn lýst yfir framboði í fyrsta sætið. Oddný Sturludóttir borgarfulltrúi hefur hins vegar ákveðið að bjóða sig ekki fram aftur, en flokkurinn hefur þrjá borgarfulltrúa í dag. Arnar telur að það verði ekki vandamál að finna álitlegar konur á listann.

„Ég held að það verði lúxusvandamál fyrir okkur að þurfa að velja á milli þeirra öflugu kvenna sem gætu haft áhuga á að takast á við þetta verkefni,“  segir Arnar Guðmundsson. Tillaga um að frambjóðendur greiði 50 þúsund krónur fyrir þátttöku í flokksvalinu var felld á fundinum í gærkvöldi.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.