Innlent

Aftur farið að hvessa suðvestanlands

Gissur Sigurðsson skrifar
Aftur er farið að hvessa suðvestanlands eftir að veður lægði upp úr miðnætti. Spáð er suðvestan 10 til 23 metrum á sekúndu suðvestanlands. Meðal annars fór járn að losna af gömlu sundlauginni á Keflavík undir morgun og sömuleiðis af húsi við Aflagranda í Reykjavík, en björgunarmenn heftu fokið.

Síðan á að snúast í hvassa norðanátt með slyddu eða snjókomu um noðrvestanvert landið í kvöld.  Um hundrað björgunarsveitarmenn sinntu yfir hundrað útköllum í gær, lang flestum á höfuðborgarsvæðinu, suður með sjó og á Akranesi. Þrátt fyrir að víða yrði tjón þegar vinnupallar hrundu á bíla eða lausamunir fuku, varð hvergi stórtjón, svo vitað sé, og engan sakaði, þrátt fyrir að björgunarmenn legðu sig víða í hættu.

Þá fékk slökkviliðið útkall í gærkvöldi þar sem óttast var að stórt tré við Skeggjagötu í Reykjavík væri að brotna, og var það sagað niður. Röskun varð á millilandaflugi en svo virðist sem það verði nær alveg hnökralaust núna með morgninum. Innanlandsflug var líka fellt niður eftir hádegi í dag, og verið er að kanna aðstæður til flugs í dag.

Sárafá fiskiskip eru á sjó umhverfis landið, nema örfá stærstu skipin, og eru sum þeirra í vari. Vindhraðinn var minni en búist var við þegar veðrið gekk norðaustur af landinu í gærkvöldi og í nótt og olli ekki teljandi  vandræðum þar nema hvað hefta þurfti fok af húsi í Ólafsfirði, og binda niður bát á Húsavík,sem stóð á vagni á hafnarsvæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×