Lífið

George Clooney dáist að Brad Pitt

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Frá hægri: George Clooney, Russell Crowe, Leonardo DiCaprio og Brad Pitt.
Frá hægri: George Clooney, Russell Crowe, Leonardo DiCaprio og Brad Pitt. myndir/getty
Leikarinn geðþekki, George Clooney, tjáir sig um kollega sína í Hollywood í nýjasta hefti tímaritsins Esquire. Í viðtalinu talar hann sérstaklega um leikarana Russell Crowe, Leonardo DiCaprio og Brad Pitt, en Clooney virðist hafa mismikið álit á þeim þremur.

Hann segir Crowe hafa sent sér ljóðabók til þess að biðjast afsökunar á því að hafa kallað Clooney, Robert De Niro og Harrison Ford „sellouts“, en það er notað í niðrandi merkingu um listamenn sem er meira umhugað um peninga og frægð en listrænan metnað. Þá sagði Crowe að Clooney rembdist við að vera eins og Frank Sinatra, en Clooney sendi Crowe póst í kjölfarið þar sem hann spurði hvað í fjáranum gengi á.

Clooney segir frá körfuboltaviðureignum sínum við Leonardo DiCaprio, en að sögn Clooney er DiCaprio fullur af stælum á körfuboltavellinum. „Ég get spilað bolta. Ég er alls ekki frábær en ég spilaði í menntaskóla og veit að ég get spilað. Ég veit líka að þú rífur ekki kjaft á vellinum nema þú getir spilað,“ segir Clooney og rifjar upp þegar hann, ásamt vinum sínum, sigraði DiCaprio og vini hans í þremur leikjum í röð, 11 - 0.

„Misræmið á milli þess hvernig þeir töluðu og hvernig þeir spiluðu kom mér til að hugsa um það hversu mikilvægt það er að umgangast fólk sem getur verið heiðarlegt við þig og sagt þér hlutina eins og þeir eru. Ég er ekki viss um að DiCaprio eigi þannig vin.“

Að lokum talaði hann fallega um Brad Pitt og sagði hann vera bestu og mestu kvikmyndastjörnu heimsins. „Hann er stærri en ég, stærri en DiCaprio, og ég dáist að því hvernig hann tekst á við það. Þetta er ekki auðvelt fyrir hann, en hann reynir alltaf að vera heiðarlegasta útgáfan af Brad Pitt.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.