Lífið

"Færa Landspítalanum 400 milljónir að gjöf“

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Grímur Atlason
Grímur Atlason Fréttablaðið/Valli
„Listamenn voru rétt í þessu að færa Landspítalanum 400 milljónir króna með því að spila popp í fimm daga í nokkrum húsum í Reykjavík í nóvemberbyrjun,“ segir meðal annars í stöðuuppfærslu Gríms Atlasonar, stjórnanda Iceland Airwaves-hátíðarinnar, sem hann birti á Facebook-síðu sinni í gær.

Auk þess segir Grímur í stöðuuppfærslunni að listamennirnir sem um ræðir hafa séð þjóðinni fyrir umfjöllun sem verði ekki metin til fjár og segir óskiljanlegt að Alþingi ætli að launa þeim greiðann með því að skera niður tuttugu milljóna króna útflutningssjóð og skera niður tónlistarsjóð um helming.

„Við höfum gert kannanir, þá fyrstu 2005 og síðan á hverju ári síðan 2010 sem snýr bara að eyðslu erlendra gesta á Airwaves. Þeir skildu eftir milljarð í gjaldeyri árið 2012 en í ár komu um 600 fleiri erlendir ferðamenn á hátíðina,“ útskýrir Grímur.

„Þegar ég segi að þessir listamenn hafi verið að skila 400 milljónum í ríkiskassann er ég að tala varlega, inn í það dæmi vantar eyðslu Íslendinga sem eru líka stórar upphæðir,“ segir Grímur jafnframt.

Sænska hljómsveitin Goat spilaði á Airwaves-hátíðinni í ár.Fréttablaðið/Arnþór
„Það kom fram í greiningarskýrslu Landsbankans í fyrra að erlend kortavelta á Íslandi jókst um fimmtíu prósent í nóvember á milli ára, og útskýringin er sú að við færðum Airwaves frá því í október 2011 í nóvember 2012.“

Það sem Grímur segir einnig vera tónlistarhátiðum á borð við Airwaves til tekna sé að neikvæð ruðningsáhrif séu engin.

„Við getum tekið Laugardagsvöll sem dæmi. Hann mun skila fínum gróða á föstudaginn þegar tíu þúsund manns mæta á landsleikinn – og það er mikil innspýting, en bara í stuttan tíma því svo stendur hann auður í langan tíma og það er líka dýrt,“ bætir hann við.

Grímur segist einnig reikna inn í dæmið erlenda umfjöllun sem allir hagnist á.

„Tónlistarmenn færa Íslandi umfjöllun sem verður ekki metin til fjár. Það var hálftími áðan á CNN tileinkaður hátíðinni og Íslandi og það mun halda áfram næstu daga. FOX, Rolling Stone, ég gæti nefnt endalaus dæmi þar sem Ísland fær ókeypis umfjöllun út á Airwaves,“ segir Grímur.

„Og launin eru þessi. Að útflutningssjóður, sem fékk að standa í eitt er farinn og tónlistarsjóður skorinn niður um 40 milljónir; sem er helmingur sjóðsins. Það er allt og sumt,“ segir Grímur Atlason og kallar eftir viðbrögðum stjórnvalda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.