Innlent

Læknadeila á Vestfjörðum: Ungum lækni sagt upp

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Heilbrigðisstofnun Vestfjarða.
Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Mynd/Pjetur
„Þetta gerðu þeir án nokkurs rökstuðnings og án þess að nefna nokkra ástæðu, þrátt fyrir að ég hafi lýst yfir vilja til að vinna við stofnunina út árið, eins og ég er með samning upp á, og jafnvel lengur,“ segir læknirinn Tómas Halldór Pajdak.

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða hefur afþakkað vinnuframlag Tómasar Halldórs við stofnunina. Fram kemur í yfirlýsingunni sem BB.is birtir að hluta að framkvæmdastjóri stofnunarinnar, Þröstur Óskarsson, og framkvæmdastjóri lækninga við stofnunina, Þorsteinn Jóhannesson, hafi bannað Tómasi að mæta til vinnu frá og með 12. nóvember.

Ágreiningur hefur komið upp innan stofnunarinnar um starfshæfi Þorsteins Jóhannessonar og fór málið inn á borð landlæknisembættisins. Læknar á stofnuninni töldu Þorstein ekki hæfan til að sinna starfi sínu vegna veikinda. Tómas var á meðal þeirra lækna sem gerði athugasemdir við hæfi Þorsteins.

„Mér er hulin ráðgáta hvernig þeir, sem ekki hefur gengið vel að reka stofnunina innan ramma fjárlaga þetta árið, ætla að mæta þeim fjárútlátum sem óhjákvæmilega falla til vegna ákvörðunar þeirra en stofnunin þarf t.d. að greiða mér full laun út árið. Mér þykir m.a. mjög miður að hafa óvænt og skyndilega verið sviptur aðstöðu til að fylgja eftir skjólstæðingum sem ég hafði ráðgert að fylgja eftir, sviptur því að sinna heilsugæslu í Súðavík og á Flateyri, og sviptur því að fá að kveðja samstarfsfólk mitt á stofnuninni á eðlilegan hátt. Ég bið skjólstæðinga sem ég hef ekki eða mun ekki hafa samband við á næstunni vegna rannsóknarniðurstaðan eða annars um að erfa það ekki við mig.“


Tengdar fréttir

Óska eftir aðkomu Landlæknisembættisins

Þröstur Óskarsson, framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, óskaði í gærkvöldi formlega eftir aðkomu Embættis landlæknis í að leysa deilu sem komið hefur upp meðal lækna hjá stofnuninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×