Lífið

Ragnheiður Eiríksdóttir afhenti borgarstjóra jólapeysuna í ár

Jón Gnarr, borgarstjóri, og Ragnheiður Eiríksdóttir, prjónakona með meiru
Jón Gnarr, borgarstjóri, og Ragnheiður Eiríksdóttir, prjónakona með meiru
Ragnheiður Eiríksdóttir, prjónakona og stofnandi Knitting Iceland, afhenti í gær Jóni Gnarr, borgarstjóra, Jólapeysuna 2013 til eignar.

Ragnheiður hannaði peysuna og prjónaði, en Jón klæddist henni í auglýsingum fyrir Jólapeysuna, sem er fjáröflunarátak Barnaheilla.

Jón er eins og kunnugt er aðdáandi prjónaðra peysa og klæðist gjarnan handprjónuðum flíkum við störf sín sem borgarstjóri.

Ragnheiður segir það ánægjulegt að borgarstjóri leggi átakinu lið með þessum hætti. 

„Enda maður þar á ferð sem mark er tekið á, bæði frumlegur og skapandi og óhræddur við að fara eigin leiðir. Ég vona bara að sem flestir taki Jón sér til fyrirmyndar og prjóni jólapeysuna í ár.“

Uppskriftina að peysunni má nálgast í öllum helstu lopasöluverslunum landsins, en nánari upplýsingar er að finna á jolapeysan.is.

Ragnheiður afhendir Jóni jólapeysuna
Í myndatökunni fyrir auglýsinguna fitjaði borgarstjóri upp á nýrri peysu og byrjaði sjálfur að prjóna. Þetta var upphaf farandpeysunnar sem verður prjónuð af ýmsum þekktum einstaklingum og seld á uppboði í lok átaksins. Peysan verður eins og sú sem Jón fékk afhenta í dag. Með henni mun fylgja skrá yfir þá einstaklinga sem hafa prjónað peysuna. Útvarpsmennirnir Guðfinnur Sigurvinsson og Margrét Blöndal hafa meðal annars prjónað í farandpeysunni, sem og Unnur Steinsson.

Jólapeysan er fjáröflunarátak Barnaheilla – Save the Children á Íslandi. 

Á áheitavefnum er hægt að skrá sig til þátttöku, bæði sem einstaklingur og sem hluti af liði, eða jólapeysupartýi.

Þar er keppt í áheitum, svipað og gert er í Hlaupastyrk og Mottumars. 

Á Facebook og Instagram verða síðan veitt verðlaun í nokkrum flokkum jólapeysa, svo sem fyrir bestu nördapeysuna, glamúrpeysuna, frumlegustu peysuna, ljótustu jólapeysuna og að sjálfsögðu fyrir fallegustu jólapeysuna 2013.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.