Lífið

Alec Baldwin réðst á ljósmyndara

AFP/NordicPhotos
Alec Baldwin réðst að ljósmyndara á föstudaginn síðastliðinn fyrir utan heimili sitt í New York.

Baldwin gekk út úr íbúð sinni og á móti honum tók hópur ljósmyndara og fréttamanna, sennilega á höttunum eftir myndskeiðum af viðbrögðum Baldwins, en hann er gjarn á að missa stjórn á skapi sínu.

Skap leikarans hefur áður komið honum í vandræði, en til að mynda rötuðu talhólfsskilaboð frá leikaranum til dóttur sinnar í fjölmiðla fyrir nokkrum árum, þar sem hann lét hana heyra það.

Leikarinn vinsæli, gekk upp að manni sem var að taka hann upp á símann sinn og ýtti honum í hlið bíls, áður en hann lamdi símann úr höndunum á honum.

Maðurinn hljóp á eftir Baldwin og öskraði: „Þú réðst á mig! Þú varst að ráðast á mig!“

„Ekki koma nálægt mér,“ svaraði Baldwin. „Þú ert að ráðast á mig. Láttu þig hverfa. Ekki viltu meiða þig?“

Baldwin, sem lék meðal annars í sjónvarpsseríunni sívinsælu 30 Rock, komst að lokum leiðar sinnar en samkvæmt heimildum slúðurmiðla vestanhafs var lögregla þó kölluð til, eins og sést á myndinni hér að neðan.

Ekki er ljóst hvort maðurinn kemur til með að kæra Baldwin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.