Íslenski boltinn

Enginn Einar eftir í KV - Bjarni Guðjóns búinn að taka tvo

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Einar Már Þórisson  fagnar sæti KV í 1. deild.
Einar Már Þórisson fagnar sæti KV í 1. deild. Mynd/Daníel
Einar Már Þórisson skrifaði í gærkvöldi undir þriggja ára samning við Fram og er enn einn ungi og reynslulitli leikmaðurinn sem Bjarni Guðjónsson, nýráðinn þjálfari Fram, fær til liðs við Safamýrarliðið fyrir átökin í Pepsi-deildinni 2014.

Bjarni er greinilega hrifinn af mönnum sem heita Einar og spila með KV því áður hafði Fram samið við Einar Bjarna Ómarsson, fyrirliði KV-liðsins sem komst upp í 1. deild karla í sumar.

Einar Már er 22. ára gamall er uppalinn KR-ingur sem getur spilað á báðum köntum en hann varð hann á sínum tíma Íslands- og bikarmeistari með 2. flokki KR. Einar Már skoraði 5 mörk í 20 leikjum með KV í 2. deildinni í sumar en Einar Bjarni var þá með 8 mörk í 20 leikjum. Til fróðleiks þá er enginn Einar eftir í KV.

„Ég fylgdist með Einar Má þegar hann byrjaði að æfa með meistaraflokki KR á sínum tíma. Það fór ekkert á milli mála að þar fór mikið efni. Hann náði hins vegar ekki í gegn en hann virðist hafa þroskast mikið með KV á síðustu tveimur árum og það er ánægjulegt. Einar Már er beinskeyttur leikmaður sem er óhræddur að taka menn á og hann getur gefið fyrir og skotið bæði með hægri og vinstri fæti," er haft eftir Bjarna Guðjónssyni í fréttatilkynningu frá Fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×