Innlent

Meira fé varið í tækjakaup á Landspítalanum

Hjörtur Hjartarson skrifar
Heilbrigðisráðherra segir að meira fé verði varið til tækjakaupa fyrir Landspítalann í ár en gert var í fyrra. Áætlun um endurnýjun tækja og búnaðar á spítalanum fram til ársins 2017 verður kynnt í næsta mánuði.

Tillaga um fjárveitinguna verður sett inn í fjárlagafrumvarpið áður en kemur að annarri umræðu um frumvarpið á Alþingi í næsta mánuði. Fluttar hafa verið margar fréttir af slæmu ástandi innan Landspítalans undanfarnar vikur.

Kristján Þór Júlíusson var gestur í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. „Það er alveg ljóst að sum tæki eru með þeim hætti að þau eru hreinlega úr sér gengin. Auðvitað eigum við að bæta úr þessum þáttum og það verður gert,“ sagði Kristján Þór.

Í fjárlögum síðasta árs var samþykkt 600 milljóna króna viðbótarfjárveiting til tækjakaupa. Engin slík fjárveiting var hinsvegar í fjárlagafrumvarpinu fyrir næsta ár sem kynnt var í síðasta mánuði. Kristján reiknar með að enn betur verði gert á næsta ári en vildi þó ekki nefna ákveðna krónutölu.

Ljóst má vera að erfitt verður fyrir heilbrigðisráðherra fá fjármagn úr ríkissjóði til leysa öll þau vandamál sem steðja að Landspítalanum. Formaður læknafélagsins telur að nokkur hundruð milljónir muni því miður duga skammt.

„Ég hef nefnt töluna 3-4 milljarðar svona fyrsta kastið og það er sú tala sem forstjóri spítalalans hefur líka nefnt,“ segir Þorbjörn Jónsson, formaður læknafélags Íslands.

Þorbjörn óttast að verða fyrir vonbrigðum þegar upplýst verður hver upphæðin er í raun og veru. Nánar um málið í myndbandinu hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×