Innlent

Mikil snjóframleiðsla í Hlíðarfjalli

Samúel Karl Ólason skrifar
Töluverður snjór er nú kominn í Hlíðarfjall.
Töluverður snjór er nú kominn í Hlíðarfjall. Mynd/Akureyri.is
Snjóframleiðsla hófst í Hlíðarfjalli á Akureyri í gær. Talsvert frost er nú í Eyjafirði og er gott útlit fyrir að það haldist svo næstu daga. Notast er við tíu snjóbyssur og eru þær í gangi allan sólarhringinn. Einnig hefur snjóað töluvert en þó vantar enn herslumuninn svo mögulegt verði að opna skíðabrekkurnar.

Búið er að gefa út að brekkurnar verði opnaðar laugardaginn 30. nóvember en í tilkynningu segir að Guðmundur Karl Jónsson, forstöðumaður í Hlíðarfjalli, telji ekki ólíklegt að opnunin geti orðið nokkru fyrr en áætlað er, ef frostið helst næstu daga og vikur. „Hér skín sólin og frostið bítur kinn. Það er algjörlega heiðskýrt en samt talsverð snjókoma, þökk sé byssunum,“ sagði Guðmundur Karl í samtali við Akureyri.is.

„Sala vetrarkorta er nú þegar hafin á Akureyri Backpackers í miðbænum á Akureyri. Meðal nýjunga í kortaflóru vetrarins er sala á svokölluðum "Séra Jóns kortum" sem fela í sér að eigandinn getur deilt kortinu með öðrum ("share" á ensku). Það er einnig nýjung að Hlíðarfjall hefur nú tekið upp samstarf við Winter Park skíðasvæðið í Colorado í Bandaríkjunum. Vetrarkort í Hlíðarfjall gilda þá sem skíðapassi í Winter Park í þrjá daga en svæðið hefur verið mjög vinsælt meðal Íslendinga. Loks er að geta samstarfs við skíðasvæðin vestan Eyjafjarðar  sem felur í sér að handhafar vetrarkorts í Hlíðarfjall geta rennt sér í tvo daga á hverju af eftirtöldum skíðasvæðum: Dalvík, Ólafsfirði, Skarðsdal og Tindastóli,“ segir í tilkynningunni.

Tíu snjóbyssur ganga nú allan sólarhringinn í Hlíðarfjalli.Mynd/Akureyri.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×