Lífið

Erfitt að vera repúblikani í Hollywood

Melissa Joan Hart gat sér gott orð sem unga nornin Sabrina í samnefndum sjónvarpsþáttum
Melissa Joan Hart gat sér gott orð sem unga nornin Sabrina í samnefndum sjónvarpsþáttum AFP/NordicPhotos
Melissa Joan Hart, sem er ef til vill hvað best þekkt fyrir hlutverk sitt sem Sabrina, í sjónvarpsþáttunum Unga Nornin Sabrina vakti mikla athygli þegar hún sagðist kjósa Repúblikanaflokkinn fyrir næstum tuttugu árum þegar hún lék enn hlutverk nornarinnar ungu. Hart segir því fjarri að hún sé eina íhaldssama Hollywood-stjarnan.

Fréttastofa Fox News tók viðtalið við barnastjörnuna í vikunni, þar sem þeir rifjuðu upp þegar Hart sagði að meðleikarar hennar í þáttunum geysivinsælu um ungu nornina hefðu orðið fyrir áfalli þegar þau fréttu að hún hefði kosið Bob Dole, forsetaefni Repúblikanaflokksins, umfram Bill Clinton í kosningum til forseta Bandaríkjanna árið 1996.

„Já, það voru nokkrir sem ráku upp stór augu á tökustað þann daginn,“ sagði Hart, sem var tvítug þegar kosningarnar fóru fram, í samtali við Fox á þriðjudaginn. 

„Mér finnst ég samt finna sífellt fleiri repúblikana í Hollywood og ég elska að rökræða pólítík. Það er enginn algjörlega svona eða hinsegin. Mér finnst það miður að það séu  bara tveir flokkar til í Bandaríkjunum. Ég vildi að þeir væru fleiri því enginn passar algjörlega í annan flokkinn,“ segir Hart.

Þegar hún var innt eftir því hvernig pólítísk sjónarmið hefðu breyst í skemmtanaiðnaðnum síðastliðin tuttugu ár, svaraði Hart:

„Um þessar mundir er ég umkringd repúblikönum í vinnunni. En ég elska að tala við vini mína sem eru demókratar. Hlusta á sjónarmið þeirra,“ sagði Hart jafnframt.

Stuttu eftir forsetakosningarnar í fyrra sagði Hart í viðtali við Fox News að hún hefði lært lexíu daginn sem hún kaus Dole, sextán árum áður.

„Það kenndi mér að maður talar ekki um pólítík í Hollywood, og flestir hugsa ekki eins og þú. En ég fann líka að það eru margir sem kjósa Repúblikanaflokkinn, en þora ekki að segja frá því. Það er eins og það sé á svörtum lista. Það hræðir mig,“ sagði Hart.

Hart hefur löngum stutt Repúblikanaflokkinn opinberlega, og það fór misvel í fólk í forsetakosningunum í fyrra.

Hart hafði sett á Twitter að hún kæmi til með að kjósa Mitt Romney, forsetaefni repúblikana, í kosningunum.

„Ég var kölluð öllum illum nöfnum,“ sagði Hart.

„Fólk skrifaði að þau vonuðu að ég mydi deyja, og þau vonuðu að börnin mín væru samkynhneigð - sem á að vera einhvers konar refsing. Hatrið var ótrúlegt,“ sagði Hart að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.