Innlent

Reynir að hnekkja Guantanamo-dómi

Guðsteinn Bjarnason skrifar
David Hicks ræðir við blaðamenn í Ástralíu.
David Hicks ræðir við blaðamenn í Ástralíu. Mynd/AP
Ástralinn David Hicks, sem varð fyrstur Guantanamo-fanganna til að fá á sig dómsúrskurð, hefur nú áfrýjað dómnum.

Ástralinn David Hicks varð fyrstur fanganna í Guantanamo til þess hljóta dóm. Hann hefur nú áfrýjað þeim dómi.

Hicks sótti á sínum tíma þjálfunarbúðir Al Kaída í Afganistan. Hann var dæmdur í sjö ára fangelsi fyrir stríðsglæpi, eftir að hann hafði í mars 2007 játað á sig brot gegn því að verða látinn laus eftir stutta afplánun.

Hann hafði þá setið fimm ár í fangabúðunum og lögmaður hans segir ekkert að marka játninguna. Örvænting ein hafi orðið til þess að hann tók þennan kost til að losna sem first.

„Hann hafði bókstaflega ekkert val undir þessum kringumstæðum,” hefur bandaríska fréttastofan AP eftir Wells Dixon, lögmanni hjá bandarísku mannréttindasamtökunum Center for Constitutional Rights í New York.

„Valið stóð um það eitt að játa sig sekan eða gera alvöru úr áformum sínum um að fremja sjálfsvíg,” segir Dixon.

Í áfrýjuninni er vísað til máls annars Guantanamo-fanga, Salim Hamdan, sem í október árið 2012 var sýknaður í áfrýjunarrétti í Washingtonborg.

Hamdan var bílstjóri Osama bin Ladens, en áfrýjunarrétturinn komst að þeirri niðurstöðu að efnislega stæðust ákærur á hendur honum ekki skilgreiningar á stríðsglæpum samkvæmt lögum.

Þessi sýknudómur hefur haft áhrif á fleiri mál gegn föngum í Guantanamo-búðum Bandaríkjahers á Kúbu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×