Innlent

Laun hækka á Reykjanesinu

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, segir ánægjulegt að laun styrkist á svæðinu.
Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, segir ánægjulegt að laun styrkist á svæðinu. vísir/gva
Í niðurstöðum könnunar sem MMR gerði fyrir Atvinnu- og hafnarsvið Reykjanesbæjar kemur fram að launin eru að hækka á Reykjanesinu og atvinnulausum að fækka. 

Fleiri íbúar Reykjanesbæjar hafa nú laun yfir 400 þúsund krónur. Í október voru 46,8 prósent þeirra sem svöruðu könnuninni með laun yfir 400 þúsund krónur á mánuði en fjöldinn var 36,9 prósent fyrir sjö mánuðum síðan, í mars síðastliðnum.

Einnig fækkar þeim sem eru með undir 250 þúsund krónur í laun á mánuði. Í febrúar á þessu ári var rétt rúmur fjórðungur vinnandi fólks með laun undir 250 þúsund krónum en í október var um fimmti hluti vinnandi íbúa með slík laun eða 21,6 prósent.

Ennfremur hefur atvinnulausum fækkað úr 6,9 prósentum í 5,7 prósent á Reykjanesinu.

„Það er ánægjulegt að laun styrkist hér á svæðinu, sérstaklega þar sem þetta tengist aukningu í ferðaþjónustu“ segir Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar. „Sú atvinnugrein hefur verið í mestri aukningu á þessu ári og greinilegt að menn treysta sér til að greiða betur en leit út fyrir síðastliðinn vetur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×