Innlent

Jafnaðarmenn taki afstöðu með hagsmunum almennings

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. Mynd/Valgarður
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, ávarpaði á þriðjudag þingflokk jafnaðarmann á Evrópuþinginu í Strassborg á sérstökum þingflokksfundi. Hann fjallaði um stöðu aðildarumsóknar Íslands að Evrópusambandinu og um Evrópusamvinnuna frá sjónarhóli jafnaðarmanna, í ljósi reynslu Íslands frá hruni.

Í ræðu Árna Páls kom fram hversu mikilvægt það væri að jafnaðarmenn tækju skýra afstöðu með hagsmunum almennings gagnvart fjármálakerfinu, kæmu í veg fyrir siðlausar lánveitingar og fjármálaleg skattaskjól og tryggðu að lánveitendur öxluðu byrðar af ábyrgðarlausum lánveitingum. Nauðsynlegt væri að innstæðutryggingar virkuðu þvert á landamæri. Jafnaðarmenn yrðu að vera í fararbroddi við að marka fjármálakerfinu nýjar leikreglur.

Árni Páll átti fund með Stefan Füle, stækkunarstjóra ESB og Maria Damanaki, sem fer fyrir sjávarútvegsmálum í framkvæmdastjórn ESB. Þau lýstu bæði skilningi á grundvallarhagsmunum Íslands og kvaðst Füle vera sannfærður um að ESB geti mætt öllum grundvallarhagsmunum Íslands í aðilidarviðræðunum.

Árni Páll fundaði auk þess með leiðandi þingmönnum á Evrópuþinginu úr öllum flokkum, sem sýnt hafa aðildarumsókn Íslands sérstakan áhuga. Hann fundaði einnig sérstaklega með Hannesi Swoboda, formanni þingflokks jafnaðarmanna, sem lagði áherslu á áframhald samstarfs þingflokks jafnaðarmanna á Evrópuþinginu við Samfylkinguna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×