Innlent

Þorbjörg Helga í oddvitaslag í borginni

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, borgarfulltrúi, hefur ákveðið að gefa kost á sér í 1. sætið í prófkjöri sjálfstæðismanna fyrir borgarstjórnarkosningar næsta vor. Hún hyggst leggja höfuðáherslu á fjármál borgarinnar og menntamál.

Þorbjörg Helga er 41 árs gömul og með meistarapróf í námssálarfræði frá University of Washington og hefur verið borgarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn frá 2006.

„Ég held að næstu fjögur árin í borginni snúist um forgangsröðun fjármála og ég lít þannig á að það sé aðeins tímaspursmál hvenær skólakerfið verður komið á sama stað og heilbrigðiskerfið okkar er á núna og það er frekar mikil áskorun sem ég er reiðubúin að leiða. Ég hef mikla þekkingu á skólamálum en rúmlega helmingur tekna borgarinnar fer til þess málaflokks,“ segir Þorbjörg Helga.

Skiptar skoðanir eru meðal sitjandi borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um framtíð flugvallarins í Vatnsmýri. Þorbjörg Helga studdi líkt og meirihluti sjálfstæðismanna í borgarstjórn nýtt aðalskipulag sem gerir ráð fyrir að annarri af tveimur flugbrautum verði lokað árið 2016 og hinni 2024.

„Ég vil byggja í Vatnsmýri og að flugvöllurinn fari til lengri tíma litið,“ segir Þorbjörg Helga. Hún segir hins vegar ekki raunhæft að flugvöllurinn fari innan þess tíma sem hefur verið markaður fyrr en fyrir liggi raunhæf lausn fyrir innanlandsflugið og að tíminn verði nýttur vel til að skoða þá valkosti sem eru í boði.

Það stefnir allt í harðan slag um oddvitasætið hjá sjálfstæðismönnum í borginni því auk Þorbjargar Helgu hefur Júlíus Vífill Ingvarsson ákveðið að gefa kost á sér í oddvitasætið og þá íhuga Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi og Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga að gera slíkt hið sama.

Júlíus Vífill og Kjartan hafa báðir verið borgarfulltrúar um árabil líkt og Þorbjörg Helga, en Halldór kæmi nýr inn. Hann flutti nýlega til Reykjavíkur en var búsettur á Ísafirði þar sem hann var bæjarstjóri um ellefu ára skeið. Prófkjörið verður hinn 16. nóvember næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×