Íslenski boltinn

Donni aðstoðar Magga Gylfa hjá Val

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Halldór Jón Sigurðsson.
Halldór Jón Sigurðsson. Mynd/www.tindastoll.is
Halldór Jón Sigurðsson, þekktastur undir gælunafninu Donni, hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla í knattspyrnu hjá Val en þetta kemur fram á heimasíðu félagsins.

Halldór Jón Sigurðsson mun því aðstoða Magnús Gylfason í Pepsi-deildinni næsta sumar en Valsmenn urðu í 5. sæti á fyrsta tímabili sínu undir stjórn Magga Gylfa.

Halldór Jón Sigurðsson er þrítugur en hefur enga síður þjálfað meistaraflokkslið Tindastóls frá árinu 2011 og varð fyrst yfirþjálfari félagsins 24 ára gamall. Halldór stýrði Tindastólsliðinu í 1. deild karla undanfarin tvö sumur en liðið endaði í 9. sæti deildarinnar í sumar.

„Donni sem hefur náð eftirtektaverðum árangri sem þjálfari tók við liði Tindastóls í júní 2011 sem þá var í 2.deild og leiddi þá til sigurs í deildinni. Hann hélt síðan áfram þjálfun liðsins í 1.deild 2012-2013 með afburða árangri. Sem leikmaður lék Donni 98 leiki í deild og bikar með Tindastól, Víking og ÍA," segir í fréttinni á heimasíðu Vals.

Donni er með UEFA A gráðu frá KSÍ og er íþrótta - og heilsufræðingur að mennt. Hann kennir íþróttir og sund við Hvaleyraskóla í Hafnarfirði.

„Donni er með efnilegustu þjálfurum á Íslandi í dag enda voru mörg lið sem höfðu áhuga á að fá hann til starfa. Það er okkur Valsmönnum mikið gleðiefni að hafa fengið Donna í Val og væntum við mikils af samstarfinu við hann," segir ennfremur í fréttinni á heimasíðu Vals.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×