Innlent

"Landsleikurinn fyrst, síðan norðurljósin“

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Reykvíkingar fá einstakt tækifæri til að fylgjast með norðurljósum í kvöld þegar slökkt verður á götulýsingu í nokkrum hverfum borgarinnar.

Norðurljósaspá Veðurstofu hefur sjaldan verið jafn góð. Að sama skapi verða veðurskilyrði afar góð og léttskýjað víða um heim í kvöld. Margir tóku eftir ljósadýrðinni í gærkvöldi en í dag var ákveðið að slökkva á götulýsingum í fjórum hverfum borgarinnar, það er, í Öskjuhlíð, Grafarholti, Skólavörðuholti og Breiðholti. Myrkvunin hefst klukkan hálf tíu og stendur í hálftíma.

„Við höfum verið að spreyta okkur á þessu undanfarið,“ segir Dagur B. Eggertsson, formaður Borgarstjórnar. „Við settum niður gangbraut á innan sólarhring um daginn og núna slökkvum við á fjórum hverfum. Þó svo að hljómi svolítið furðulega þá eru svona hröð verkefni sem byggja á samhæfingu margra, þetta eru kannski bestu æfingarnar fyrir það þegar eitthvað alvarlegt á sér stað.“

Þá eru íbúar hvattir til að slökkva ljósin svo að ljósmengun verði sem minnst. Þá er áhugasömum bent á útivistarsvæði borgarinnar í Heiðmörk og Hólmsheiði. Þá er fólk hvatt til að aka varlega á þessum svæðum og sýna tillitssemi á meðna myrkvun stendur. Þess ber að geta að öll götuljós verða slökkt á Seltjarnarnesi og í Hafnarfirði á sama tíma.

„Landsleikurinn fyrst, síðan norðurljósin. Veðurstofan þarf að vinna í sínum málum á meðan,“ segir Dagur.

Þeir sem ná góðum myndum af norðurljósunum í kvöld geta sent myndir á ritstjorn@visir.is eða gert # á instagram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×