Innlent

Breytingar á mataræði barna

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Styrkur heildar kólestróls og LDL kólestróls sé lægri nú en fyrir 10 árum síðan. Mynd úr safni.
Styrkur heildar kólestróls og LDL kólestróls sé lægri nú en fyrir 10 árum síðan. Mynd úr safni. mynd/365
Sex ára börn borða hlutfallslega minna af mettuðum fitusýrum og transfitusýrum  í dag en fyrir áratug síðan. Einnig sjást jákvæðar breytingar í gæðum kolvetna sem börnin neyta sem endurspeglast í meiri neyslu af trefjum og minni neysla er á viðbættum sykri.

 

Þetta eru niðurstöður rannsóknar sem framkvæmd var á Rannsóknarstofu í næringarfræði og Landspítala Íslands undir stjórn Ingu Þórsdóttur og voru kynntar síðastliðinn föstudag af Hafdísi Helgadóttur meistaranema í næringarfræði. Mataræði sex ára barna árin 2011 til 2012 var skoðað og borið saman við rannsókn á mataræði í sama aldurshópi árin 2001 til 2002.

 

„Skoðaðar voru breytingar í mataræði barnanna á þessu 10 ára tímabili. Einnig voru teknar blóðprufur og gerðar mælingar á blóðfitu,“ segir Ingibjörg Gunnarsdóttir, prófessor í næringarfræði sem einnig tók þátt í rannsókninni.

Hún segir að helstu niðurstöðurnar séu að það sjáist jákvæðar breytingar í á blóðfitum meðal 6 ára barna á Íslandi. Styrkur heildar kólestróls og LDL kólestróls sé lægri nú en fyrir 10 árum síðan, en hár styrkur LDL kólestróls er þekktur áhættuþáttur hjarta og æðasjúkdóma. Sú ályktun er dregin að breytingar á styrk kólesteróls á blóði barna megi að hluta til rekja til bættra fitugæða í fæði.

„Þessar niðurstöður eru í góðu samræmi við breytingar sem orðið hafa á matarræði fullorðinna Íslendinga sem og niðurstöður rannsókna Hjartavernd,“ segir Ingibjörg.

Hún segir að á síðustu áratugum sést lækkun í tíðni hjartasjúkdóma á Íslandi, samhliða bættum fæðuvenjum. Það sé mikilvægt að huga að fitugæðum.

„Þessu er mikilvægt að halda á lofti, sér í lagi þar sem ákveðinn hávær hópur hefur undanfarið haldið því fram að óþarfi sé að hafa áhyggjur af mettuðu fitunni. Okkar gögn ásamt rannsóknagögnum annara sýna allt annað,“ segir Ingibjörg. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×