Íslenski boltinn

Máni mun ekki mæta á leiki Keflavíkur og Stjörnunnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þorkell Máni Pétursson.
Þorkell Máni Pétursson. Mynd/Daníel
Þorkell Máni Pétursson verður ekki áfram aðstoðarþjálfari Keflavíkur en þetta staðfesti hann í dag í samtali við fótbolta.net. Hann hefur ekki tíma í fótboltann vegna anna. Máni er harður stuðningsmaður Stjörnunnar en hefur miklar taugar til Keflvíkinga eftir sumarið.

Máni kom til Keflavíkur um mitt sumar en Keflavíkurliðið náði frábærum endakafla á mótinu undir stjórn Kristjáns Guðmundssonar. Kristján tók við Keflavíkurliðinu í erfiðri stöðu af Zoran Ljubicic og fékk síðan Mána til að koma í þjálfarateymið sitt.

„Þetta er of mikið álag á fólkið í kringum mig. Ég er að reka umboðsskrifstofu og fjölmiðlasamsteypuna Harmageddon. Ég fékk að fara í þetta ævintýri fyrir einstaka þolinmæði vinnufélaga míns en ég hef ekki tíma í að halda áfram," sagði Þorkell Máni við Fótbolta.net í dag.

„Ég myndi ekki hugsa mig tvisvar um að halda áfram ef ég hefði tök á því. Ef ég kæmi eitthvað nálægt þjálfun næsta sumar þá eru allar líkur á því að það yrði í Keflavík," sagði Máni en það má sjá allt viðtalið með því að smella hér.

Keflavík tapaði tveimur fyrstu leikjum sínum eftir að Máni kom á móti toppliðum KR og FH. Síðan komst liðið á skrið og náði alls í 17 stig í 9 leikjum frá 7. ágúst til 22.september. Keflavík endaði mótið síðan í 9. sæti eftir tap á móti Blikum í lokaumferðinni.

Máni segist ætla að styðja Keflvíkinga sem og sína menn í Stjörnunni næsta sumar. „Ég styð Keflavík og Stjörnuna. Ég verð í stúkunni með Má (Gunnarssyni) að styðja Keflavík en ég verð heima þegar Stjarnan og Keflavík mætast," sagði Máni ennfremur í viðtalinu á fótbolti.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×