Innlent

Róttækar aðgerðir gegn launamun kynjanna

María Lilja Þrastardóttir skrifar
Tillögur Jóns Gnarr um aðgerðir til þess að útrýma kynbundnum launamun hjá borginni voru ræddar á fundi borgarstjórnar í dag. Aðgerðirnar eru róttækar og til stendur að leggja niður umbunakerfi í formi fastrar yfirvinnu.

Þrátt fyrir að kynbundinn launamunur hafi minnkað jafnt og þétt hjá Reykjavíkurborg frá árinu 1999 eru heildarlaun karla nú 5.8 prósent hærri en kvenna. Konur eru 73 prósent af starfsmönnum borgarinnar en karlar tæplega 27 prósent.

Launamunurinn er talinn skýrast af ýmsum aukagreiðslum, s.s. aksturspeningum og föstum yfirvinnutímum. Á meðal tillagna borgarstjórnar kemur fram að til standi að endurskoða slíka yfirvinnusamninga.

Einnig stendur til að innleiða kynhlutlaust viðbótarlaunakerfi, þá verður aðgengi að upplýsingum um laun og þróun launa stórbætt og stjórnendur innan borgarinnar muni koma til með að fá fræðslu með reglubundnum hætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×