Lífið

Starfsemi The New York City Opera lögð af

Mynd/Getty
The New York City Opera hefur oft verið lýst sem óstýrilátu yngri systkini Metropolitan Óperunnar í New York-borg í Bandaríkjunum.

The New York City Opera framleiddi frekar ódýrari verk, sem þau töldu eiga meira erindi við samtímann, og notuðust gjarnan við yngri tónskáld en Metropolitan Óperan.

„Ópera fólksins,“ kallaði stofnandi óperunnar, Fiorello La Guardia, framtakið þegar hann stofnaði The New York City Opera fyrir um það bil sjötíu árum.

Í áratugi hélt The New York City Opera úti starfsemi sinni í Lincoln Center þar í borg. En árið 2011 byrjaði að halla undan fæti og þurfti óperan að flytja sig um set, í ódýrara húsnæði.

Opnunarverk óperunnar í ár, Anna Nicole eftir Richard Thomas og Mark-Anthony Turnage, stóð ekki undir væntingum. Sýningin heillaði hvorki gagnrýnendur né gesti, og áhorfendatölur voru langt undir settum markmiðum.

Í síðasta mánuði tilkynnti The New York City Opera að starfsemin þyrfti innspýtingu upp á sjö milljón dollara til að geta haldið áfram. Söfnunarátak var sett af stað en komst ekki nálægt því að ná markmiðinu.

Á þriðjudaginn síðastliðinn tilkynnti The New York City Opera að starfsemin yrði lögð af.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.