Innlent

Segir náttúruverndarlögin valdboð úr 101 Reykjavík

Kristján Már Unnarsson skrifar
Landssamtök landeigenda fagna þeirri stefnumörkun umhverfisráðherra að fella úr gildi ný lög um náttúruvernd. Formaður þeirra, Örn Bergsson, bóndi að Hofi í Öræfum, segir lögin einkennast af valdboði stofnana í Reykjavík og bændur yrðu sviptir frjálsri för um eigið land.

Meðan Náttúruverndarsamtök Íslands og Landvernd mótmæla áformum ráðherrans gleðjast Landssamtök landeigenda yfir því að afnema eigi hin umdeildu lög. Skógræktarfélag Íslands og ferðasamtök jeppafólks eru einnig í hópi þeirra sem fagna enda mótmæltu þau náttúruverndarlögum síðustu ríkisstjórnar.

Örn telur vel unnt að ná sátt um málið enda snúist ágreiningurinn ekki um náttúruvernd heldur valdboð. Lögin hafi einkennst af stofnanaræði enda samin af vissum stofnunum.

„Við erum náttúrulega miklir náttúruvendarsinnar við bændur enda viljum við að vel sé gengið um landið,“ sagði Örn í viðtali í fréttum Stöðvar 2.

„En þessi lög einkennast af valdboði úr 101 Reykjavík. Þetta verður að gerast í sátt við landeigendur og meðal þess sem við mótmæltum harðlega er að við hefðum ekki frjálsa för um okkar eigið land,“ sagði Örn Bergsson, bóndi á Hofi í Öræfum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×