Innlent

Vigdís segir engin leyndarmál í hagræðingarhópnum

Heimir Már Pétursson skrifar
Svandís Svavarsdóttir og Vigdís Hauksdóttir.
Svandís Svavarsdóttir og Vigdís Hauksdóttir.
Þingflokkur Vinstri grænna fer fram á að forsætisráðherra afhendi öll gögn um störf hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar.  Vigdís Hauksdóttir segir þetta hið besta mál enda hafi hagræðingarhópurinn ekkert að fela.

Þingflokkur Vinstri grænna hefur með vísan til upplýsingalaga og í ljósi yfirstandandi umfjöllunar á Alþingi um fjárlagafrumvarpið og tengd mál óskað eftir afriti af öllum gögnum hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar sem tók til starfa samkvæmt erindisbréfi í júlí síðast liðnum.

Svandís Svavarsdóttir þingflokksformaður Vinstri grænna segir tillögur hópsins hljóta að snerta fjárlagaumræðuna sem nú standi yfir á Alþingi.

„Og við teljum mikilvægt, ekki síst í ljósi þess að þarna er formaður fjárlaganefndar í hópnum, að við fáum að sjá hvaða vangaveltur hafa verið þarna upp á borðinu,“ segir Svandís.

Óskað er eftir erindisbréfinu, fundargerðum, tölvupóstum til hópsins og frá honum auk lista yfir gesti og viðmælendur hópsins. Jafnframt er óskað eftir greinargerðum og skjölum  öðrum en ófrágengnum vinnugögnum.

Loks óskar þingflokkur Vinstri grænna eftir þeim tillögum sem hópurinn hafi þegar skilað af sér til ráðherranefndar um ríkisfjármál.

„Einfaldlega vegna þess að við viljum vita hvaða sjónarmið eru þarna á ferðinni, hvaða forgangsröðun og umræða á sér stað þarna. Við verðum vör við það í umræðu um fjárlagafrumvarpið að menn tala eins og þarna sé bara hugmynd á ferðinni og sumir ganga jafnvel svo langt að  þarna séu bara vangaveltur en ekki frumvarp fjármálaráðherra og þar með frumvarp beggja þingflokkanna,“ segir Svandís.

Vigdís Hauksdóttir formaður fjárlaganefndar, sem einnig á sæti í hagræðingarhópnum,  segir alla þingmenn vita að fjárlög taki breytingum í meðförum þingsins og þeir 63 þingmenn sem sitji á Alþingi hafi fjárveitingarvaldið.

„Þannig að við skulum bara leyfa þessu að fara af stað. Það er enn verið að ræða frumvarpið í fyrstu umræðu og svo kemur það formlega til nefndarinnar eftir helgi,“ segir Vigdís. Hún gerir engar athugasemdir við ósk Vinstri grænna um afhendingu gagna hagræðingarhópsins.

„Það er bara hið besta mál. Þetta erindi hlýtur að fara í farveg og ráðuneytið síðan meta það hvort þetta falli ekki undir birtingargrein upplýsingalaga,“ segir hún. Það séu engin leyndarmál í gögnum hagræðingarhópsins.

„Hagræðingarhópurinn hefur ekkert að fela. Ég myndi frekar segja, að þegar okkar tillögur birtast held ég að þær eigi eftir að vekja gleði og von í brjósti landsmanna,“ segir Vigdís.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×