Innlent

Þriggja barna, krabbameinssjúkur faðir greiddi hátt í milljón fyrir læknisþjónustu á árinu

Maður Guðnýjar Óskar Þórsdóttur greindist með Krabbamein fyrir ári síðan. Saman eiga hjónin þrjú börn og þau eru bæði í námi. Auknum fjölda erinda er sinnt án innlagnar á heilbrigðisstofnanir en með þeim hætti lendir kostnaður rannsóknarinnar á sjúklingi í stað spítala.

Guðný hefur frá upphafi veikindanna tekið saman allan þann kostnað sem þau hjón hafa þurft að greiða.

Á einu ári hafa þau greitt um 836.000 krónur í lyf, rannsóknir og ferðakostnað, en þau hafa verið búsett í Reykjanesbæ í um eitt ár, áður Ísafirði.

„Við erum heppin. Allavega að því leitinu til að við vorum ekki búin að kaupa okkur hús. Við tókum ekki bílalán og áttum engar skuldir á bakinu. Við vorum líka búin að safna okkur pening til að flytja í burtu og byrja í skóla í Reykjavík. Þannig áttum við smá sjóð til þess að standa straum af kostnaði. Ég væri ekki til í að hugsa þetta ef við hefðum átt hús og skuldir og annað. Þá værum við bara löngu farin á hausinn,“ segir Guðný.

Guðný segir jafnframt að hún hefði aldrei getað gert sér kostnaðinn í hugarlund. Það sé alvarlegt að með erfiðum veikindum fylgi gríðarleg fjárútlát.

Í nýrri skýrslu Krabbameinsfélagsins um greiðsluþátttöku almennings má sjá töflu yfir kostnað við brjóstakrabbameinsmeðferðir, án innlagnar, sem greiðast af sjúklingi.

Sjúklingur sem fer í lyfjameðferð, skurðaðgerð og geislameðferð greiddi á árinu 2013, 191 þúsund krónur sem er hækkun um 14,48 prósent frá árinu 2011.

Sjúklingur sem fer í skurðaðgerð, uppbyggingu brjósts og lyfjameðferð greiðir fyrir það 215 þúsund krónur, sem er hækkun um 10 prósent frá árinu 2011.

Þá greiðir sjúklingur, sem aðeins fer í skurðaðgerð, nú um 55 þúsund krónur sem gera 11 prósenta hækkun frá árinu 2011.

Lyfjakostnaður fyrir brjóstakrabbameinssjúka, sem aðra krabbameinssjúka, hefur einnig aukist töluvert á milli ára vegna breytinga á lögum um sjúkratryggingar, eða um tæpar 70 þúsund krónur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×