Innlent

Dagur opinn fyrir Sundabraut í einkaframkvæmd

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Dagur B. Eggertsson er opinn fyrir þeirri hugmynd að Sundabraut fari í einkaframkvæmd.
Dagur B. Eggertsson er opinn fyrir þeirri hugmynd að Sundabraut fari í einkaframkvæmd.
Dagur B. Eggertsson, formaður borgaráðs, er opinn fyrir þeirri hugmynd vegamálastjóra að setja Sundabraut og fleiri samgönguframkvæmdir innan Reykjavíkurborgar í einkaframkvæmd.

Hreinn Haraldsson, vegamálastjóri, segir í samtali við Fréttablaðið í dag, að Sundabraut sé álitlegur kostur í einkaframkvæmd. Dagur B. Eggertsson telur að Sundabraut gæti dregið verulega úr umferð á Miklubraut og gæti reynst mikilvæg framkvæmd til framtíðar.

„Við erum alveg opin fyrir þessari umræðu og það hefur alltaf verið gert ráð fyrir þeim möguleika að Sundabraut færi í einkaframkvæmd. Svo má líka nefna framkvæmd eins og Öskjuhlíðargöng sem gæti einnig hentað í einkaframkvæmd,“ segir Dagur í samtali við Vísi.

Dagur segir að deila megi um hvort miklvægt sé að ráðast í Sundabraut á allra næstu árum. „Áformin með Sundabraut tengdust nokkuð uppbyggingu íbúðarsvæða á Geldinganesi og Álfsnesi sem verður ekki farið í á næstunni. Það fer eftir útfærslunni og hver stofnkostnaðurinn verður hvort ráðlegt verði að ráðast í þessa framkvæmd eða ekki.“

Dagur telur ekki raunhæft að ráðast í einkaframkvæmd með Sundabraut nema að veggjald sé hóflegt. „Við viljum sjá hvað veggjöld eiga að standa undir stórum hluta kostnaðar og hversu dýrt verður fyrir íbúa að nota Sundabraut. Ég er ekki viss um að íbúar séu tilbúnir að borga mörg þúsund krónur fyrir að fara þarna yfir en ef þetta er hóflegt gjald þá gæti þetta gengið. Við höfum ágætis reynslu af Hvalfjarðargöngum í því efni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×