Innlent

Dæmdur fyrir kynferðisbrot gegn þrettán ára stúlkum

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Þriggja ára óskilorðsbundið fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn börnum.
Þriggja ára óskilorðsbundið fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn börnum.
Héraðsdómur Suðurlands hefur dæmt ungan karlmann í þriggja ára fangelsi, án skilorðs, fyrir kynferðisbrot gegn börnum.

Um er að ræða tvær nauðganir gegn þrettán ára stúlkum. Annars vegar ákærði ríkissaksóknari manninn fyrir kynferðisbrot gegn barni með því að hafa haft við hana samfarir í júní 2010. Hins vegar var hann ákærður fyrir að hafa með ólögmætri nauðung látið aðra stúlku hafa við sig munnmök og þannig nýtt sér yfirburðastöðu sína gagnvart stúlkunni sökum aldurs- og þroskamunar og það að hann hafði komið henni í aðstæður sem vöktu með henni ótta og bjargarleysi. Síðara brotið átti sér stað í nóvember 2012 þegar maðurinn var 18 ára gamall.

Maðurinn játaði skýlaust brot sitt samkvæmt fyrri ákæruliðnum. Hann neitaði hins vegar alfarið sök vegna hins síðari. Sagðist hann hvorki hafa vitað um réttan aldur brotaþola umrætt sitt né beitt hana ólögmætri nauðung.

Í niðurstöðu héraðsdóms segir: „Að mati dómsins voru aðstæður þær sem ákærði kom brotaþola í umræddan dag þess eðlis að valda þrettán ára barni ótta og bjargarleysi. Vegna þessa og yfirburðastöðu ákærða vegna aldurs- og þroskamunar sem og trúverðugrar lýsingar brotaþola á því hvernig ákærði lét hana hafa við sig munnmök, telur dómurinn hafið yfir skynsamlegan vafa að aðstæður í máli þessu falli undir annars konar ólögmæta nauðung í skilningi 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 3. gr. laga nr. 61/2007. Að mati dómsins er því fram komin lögfull sönnun þess að ákærði hafi beitt brotaþola ólögmætri nauðung þegar hann, gegn vilja brotaþola, lét brotaþola hafa við sig munnmök sem samkvæmt dómaframkvæmd hefur verið skilgreint sem önnur kynferðisleg mök.“

Maðurinn á, þrátt fyrir ungan aldur, að baki nokkurn sakaferil. Hann hefur tvívegis gengis undir sektargreiðslu vegna ölvunaraksturs og aksturs án réttinda. Þá hefur hann verið dæmdur fyrir fíkniefnalagabrot og gengist undir sektargreiðslu hjá lögreglustjóra fyrir samskonar brot. Einnig hefur hann verið dæmdur fyrir frelsissviptingu og brennu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×