Innlent

Grænlensk börn læra að synda á Íslandi

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Grænlensku börnin haf afengið að upplifa ýmislegt hér á landi. Þau fóru meðal annars í heimsókn á Bessastaði þar sem þau hittu Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands.
Grænlensku börnin haf afengið að upplifa ýmislegt hér á landi. Þau fóru meðal annars í heimsókn á Bessastaði þar sem þau hittu Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands. mynd/Hrafn Jökulssin
Undanfarnar tvær vikur hafa 31 grænlenskt barn dvalið hér á landi í boði Kalak sem er vinafélag Íslands og Grænlands.

Börnin koma frá litlu þorpunum á Austur-Grænlandi og eru því okkar næstu nágrannar segir Hrafn Jökulsson, stjórnarmaður í Kalak og Grænlandsvinur.

Hann segir megintilgang ferðarinnar vera að börnin læri að synda,  engar sundlaugar séu í Grænlandi þar sem börnin búa. Þau vaxi því úr grasi án þess að læra hið lífsnauðsynlega sport sem sund sé.

„Þetta er áttundi árgangurinn sem kemur hingað til lands og það er Kalak sem hefur staðið að þessu frá upphafi með góðri reynslu samvinnu við Kópavogsbæ og Flugfélag Íslands,“ segir Hrafn.

„Það er komin frábær reynsla á þetta verkefni, þetta er ógleymanleg upplifun fyrir börnin sem eru flest að fara til útlanda í fyrsta skipti.“

Hrafn segir að hér hafi börnin gengið í skóla, en Kópavogsskóli og Kársnesskóli í Kópavogi tóku á móti börnunum. Þar hafa þau hafa kynnst íslenskum jafnöldrum. „Þau hafa farið í útreiðatúr, séð Gullfoss og Geysi, heimsótt Bessastaði og Alþingi og gert ótal margt skemmtilegt.“

Nú er komið að kveðjustund og klukkan 16 í dag fer fram kveðjuhóf í Hörpu. „Þetta er búið að vera mjög gaman eins og alltaf og þau fara héðan flugsynd og full af góðum minningum,“ segir Hrafn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×