Innlent

Grunlaus hópur albanskra flóttamanna hnepptur í varðhald: Verða sendir burt á næstu dögum

María Lilja Þrastardóttir skrifar
Í kvöldfréttum í gær sögðum við frá ákvörðun Innanríkisráðuneytisins að vísa úr landi fjórum barnafjölskyldum frá Albaníu. Í dag var öðrum hópi Albana einnig gert, fyrirvaralaust, að fara af landi brott. 

Mennirnir mættu að sögn lögmanna, grunlausir á fund hjá Ríkislögreglustjóra, voru hnepptir í varðhald sem þeir munu að öllum líkindum sitja þangað til þeir verða fluttir burt af yfirvöldum á næstu dögum.

Helga Vala Helgadóttir er lögmaður eins þeirra.

„Þeir fá ekki að dvelja hér á meðan innanríkisráðuneytið úrskurðar um það hvort að ákvörðun útlendingastofnunar hafi verið réttmæt eða ekki. Þetta er auðvitað allt með ólíkindum afþví að í fyrsta lagi þá er kveðið um það í flóttamannasamningi að þeir sem sækja um hæli og fá synjun, eigi rétt á því að bera þá ákvörðun undir æðra stjórnvald. Þar stendur einnig skýrt að leifa eigi viðkomandi að dvelja í ríkinu á meðan stjórnvöld taka þá ákvörðun,“ segir Helga Vala.

Hún segir málinu svipa mikið til máls Króatísku fjölskyldnanna sem voru sendar aftur til heimalandsins fyrr á árinu en þá beitti ráðuneytið með sama hætti frestun réttaráhrifa. 

„Ég sé ekki hvernig við ætlum að svínbeygja allar reglur og mannréttindi gagnvart fólki bara af því það er af einhverju ákveðnu þjóðerni. Við erum að horfa á þetta í annað skipti á þessu ári.“ 



Skjólstæðingur Helgu Völu var einnig á meðal þeirra sem handteknir voru í stórri lögregluaðgerð í Kópavogi fyrir skemmstu.

„Þetta er frekar óhugnalegt afþví að fyrir hálfum mánuði þá ruddist sérsveit lögreglu inn á heimili hjá mínum umbjóðanda og fleirum sem voru þar í fasta svefni. Hann var í haldi í sjö átta klukkustundir og fékk hvorki að tala við túlk né lögmann, þrátt fyrir að lögbundið sé á Íslandi að handtekinn maður eigi rétt á slíku.“



Lögregla hefur sagt þessar aðgerðir hafa verið vegna gruns um fíkniefnavörslu og varðveislu þýfis. Ekkert slíkt fannst þó á albönsku mönnunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×