Innlent

„Framkvæmdarlegt atriði“

Hjörtur Hjartarson skrifar
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, efast ekki um lögmæti þess að skattleggja þrotabú föllnu bankanna. Fyrirtækin falli skýrt undir þá skilgreiningu að vera fjármálafyrirtæki.

Í fjárlögum næstar árs var samþykkt að fella úr gildi undanþágu fyrir fyrirtæki í slitameðferð um að á þau féllu ekki sérstakur bankaskattur. Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis sagðist í kvöldfréttum RÚV í gærkvöld að hún efaðist um þessarar skattlagningar. Fyrir það fyrsta væru þrotabúin ekki fjármálafyrirtæki og í öðru lagi væri skattstofninn óljós.

„Nei, þetta eru fjármálafyrirtæki í slitameðferð. Þau eru ekki eins og önnur fjármálafyrirtæki en fram til þessa hafa fjármálafyrirtæki í slitameðferð verið sérstaklega undanþegin með grein í lögunum, þannig að það virðist sem hugsunin hafi verið sú að án þeirrar sérstakar undanþágu þá myndi skatturinn leggjast á slík fjármálafyrirtæki,“ segir Bjarni og bætir við að skattstofninn ætti heldur ekki að flækja málin.

„Skattstofninn á að vera svo óljós. Væntanlega er þar verið að vísa til þess að liggi endanlega fyrir hvaða kröfur eru samþykktar í búin en það væri þá hægt að miða við samþykktar kröfur og það liggur alveg fyrir hverjar þær eru. Að öðru leyti er þetta svona framkvæmdarlegt atriði. Ég hef ekki miklar áhyggjur af því.“

Reiknað er með að þessi skattur muni færa ríkissjóði 11,3 milljarða á næsta ári. Bjarni telur ekki að hætta sé á að skattlagningin brjóti í bága við stjórnarskrá Íslands.

„Nei, ég sé það nú ekki. Við erum að tala hérna um brot úr prósenti af skuldunum. Heildareignir þessara þrotabúa, þetta eru fjármálafyrirtæki í slitameðferð eru einhversstaðar á bilinu 2500 til 3000 milljarðar. Heildarskattlagningin mun frá þessum aðilum nema svona um 11 milljörðum af þessum rúmum 2500 milljörðum. Það er engin einasta leið að tala um einhverja eignaupptöku í þessu samhengi,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×