Innlent

Frostrósafélög í milljónaskuld

Samúel segir að skuldir móðurfélagsins, Frost Culture Company, séu að megninu til við sjálft dótturfélagið vegna útrásar Frostrósa.
Samúel segir að skuldir móðurfélagsins, Frost Culture Company, séu að megninu til við sjálft dótturfélagið vegna útrásar Frostrósa.
Fyrirtækið Frost Culture Company og dótturfélag þess Frostroses Entertainment, sem stendur að Frostrósartónleikaröðinni, skulda samanlagt rúmlega 300 milljónir króna samkvæmt ársreikningi. Ekki hefur verið gert upp við tvo kóra sem sungu á Frostrósartónleikunum í fyrra. Skuldir móðurfélagsins eru að mestu leyti við dótturfélagið vegna útrásar, segir framkvæmdastjóri félaganna.

Frostroses Entertainment, sem stendur að tónleikaröðinni Frostrósir, hagnaðist um 42 miljónir króna árið 2011 en skuldir þess námu á sama tíma um 55 milljónum króna. Móðurfélag Frostroses Entertainment, Frost Culture Company, skuldaði á sama tíma 260 milljónir króna, þar af voru skammtímaskuldir um 170 milljónir króna. Að sögn Samúels Kristjánssonar, framkvæmdastjóra félaganna, sýnir ársreikningur Frostroses Entertainment stöðu félagsins um áramótin 2011-2012. Þá hafi verið eftir að innheimta og gera upp stóran hluta reikninga. Nú sé staðan allt önnur og reksturinn í jafnvægi.

Samúel segir að skuldir móðurfélagsins, Frost Culture Company, séu að megninu til við sjálft dótturfélagið vegna útrásar Frostrósa. Í tölvupósti frá endurskoðanda fyrirtækjanna, sem Samúel sendi Vísi, segir að Frostroses sé dótturfélag Frost Culture en þar sem það félag sé alfarið í eigu Samúels hafi ekki verið gerður samstæðureikningur. Því þurfi að skoða ársreikninga félaganna saman. Í tölvupóstinum kemur fram að að móðurfélagið skuldi dótturfélaginu rúmar 150 milljónir króna og sú skuld sé megin uppistaðan í neikvæðri stöðu félagsins. Samkvæmt þessu skuldar móðurfélagið, Frostroses Culture Company, því öðrum aðilum um 110 milljónir króna.

Samúel segir að séu ársreikningarnir 2011 lagðir saman séu heildarskuldir fyrirtækjanna umfram útistandandi kröfur um það bil 14,5 milljónir króna. Ársreikningar fyrir árið 2012 hafa ekki verið birtir.

Ekki gert upp við tvo kóra

Samúel á enn eftir að gera upp við tvo kóra sem tóku þátt í Frostrósum í fyrra. „Hann skuldar okkur ennþá peninga en ég ætla ekki að segja hvað það er mikið,“ segir Agla Ástbjörnsdóttir, formaður söngsveitarinnar Fílharmóníu. „Hann ætlar sér að standa skil á þessu þannig að við verðum mjög glöð í lok mánaðarins þegar þetta verður gert upp.“

Söngsveitin Fílharmónía útvegaði um 200 manna kór fyrir tónleika Frostrósa í Hörpu í fyrra sem og hluta kórs sem söng á tónleikunum á Akureyri. „Við erum búin að bíða eftir greiðslunni frá því fyrir síðustu jól,“ segir Agla sem er bjartsýn á að fá peningana. „Maður verður að vera bjartsýnn."

Að sögn Samúels skuldar félagið kórunum innan við eina milljón króna. Hann segir að þetta sé í fyrsta skipti sem fyrirtækið lendi í því að ná ekki að gera upp við alla sem að tónleikunum koma. Hann hafi átt fund með forsvarsmönnum kóranna í fyrradag og ætli að gera upp við þá á næstunni.

„Ég hef aldrei skilið neitt eftir. Við létum það ganga fyrir að gera upp við einstaklinga og eigum eftir að klára að gera upp við tvo kóra sem verður klárað á næstu dögum. Þá verður rekstur okkar kominn í jafnvægi,“ segir Samúel. „Við höfum rekið þetta á sömu kennitölunni í öll þessi ár. Það er gífurlega áhætta fyrir hver jól en við höfum ekki lent í svona erfiðleikum áður.“

Stefnir á útrás

Eins og fram kom í Fréttablaðinu í vikunni verða lokatónleikar Frostrósa hér á landi í Laugardalshöllinni í desember en Samúel vinnur samhliða því koma á Frostrósartónleikum í Noregi og Svíþjóð. Útrásin skýri því að mörgu leyti skuldir móðurfélagsins. „Við erum búin að eyða tugum milljóna í verkefnið úti og túrinn mun velta vel yfir milljarði,“ segir hann.

Útrás Frostrósa átti að hefjast í fyrra en að sögn Samúels var ákveðið að seinka henni til ársins 2015. Hann vinnur nú að því að stofna félög um reksturinn í Svíþjóð og Noregi. Spurður hvort reksturinn eigi eftir að ganga miðað við skuldir móðurfélagsins segir Samúel: „Það veltur á því hvernig verkefnið tekst úti. Við erum búin að leggja mikið í þessa fjárfestingu og heildarskuld félagsins nemur ekki nema 7-8% af áætlaðri veltu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×