Innlent

43 fjölskyldur missa heimili sín í dag

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
43 fjölskyldur missa heimili sín í dag samkvæmt yfirlýsingu frá Hagsmunasamtökum heimilanna. Fulltrúar samtakanna áttu fund í dag með Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, innanríkisráðherra. Samtökin ítrekuðu kröfu sína um að nauðungarsölu vegna neytendalána verði stöðvaðar, enda séu þær ólögmætar nema dómsúrskurður liggi fyrir.

Vilhjálmur Bjarnason, formaður stjórnar samtakanna, sagði í samtali við Vísi að honum finndist fáránlegt að bjóða upp þessi heimili meðan beðið er eftir skýrt boðuðum aðgerðum ríkisstjórnarinnar um leiðréttingu höfuðstóls lána. Í einhverjum tilfellum myndu slíkar aðgerðir bjarga þessum fjölskyldum frá því að missa heimili sín. Nauðungarsölur eru ekki afturkræfar samkvæmt núgildandi lögum.

Vilhjálmur segir að 154 nauðungarsölur verði í þessari viku á heimilum fólks og í tíð síðustu ríkisstjórnar hafi þær verið að meðaltali 3 á dag. Virðist sem nauðungarsölum á íbúðarhúsnæði sé frekar að fjölga en hitt.

Vilhjálmur sagði fátt um svör hjá ráðherra vegna málsins, lögfræðingar og ráðgjafar ráðuneytisins segi ekki hægt að stöðva nauðungarsölurnar og aðeins sé verið að vinna í almennum aðgerðum til leiðréttingar skulda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×