Íslenski boltinn

Yfirlýsing frá Bjarna Guðjóns: Það er komið að tímamótum á mínum ferli

Stefán Árni Pálsson skrifar
Bjarni Guðjónsson mun snúa sér alfarið að þjálfun.
Bjarni Guðjónsson mun snúa sér alfarið að þjálfun. mynd / daníel
Bjarni Guðjónsson hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann kveður KR með söknuði en hann mun taka við Fram á næsta tímabili.

Fram kemur í yfirlýsingunni að Bjarni muni einbeita sér að þjálfun og leggja skóna á hilluna.

Hér að neðan má lesa yfirlýsingu Bjarna í heild sinni.

Það var mér sannur heiður að fá að lyfta Íslandsmeistaratitli í annað sinn sem fyrirliði KR í Frostaskjólinu þann 28. september síðastliðinn. Þeirri stund mun ég aldrei gleyma, því þann 28. september lék ég minn síðasta leik fyrir KR.

Undanfarin fimm ár hafa verið frábær og ég er stoltur af öllu sem við KR-ingar afrekuðum á þeim tíma. Við unnum þrjá bikarmeistaratitla og náðum glæsilegum árangri í Evrópukeppninni. En það mikilvægasta af öllu var að skila Íslandsmeistaratitlinum aftur í Vesturbæinn.

Það er komið að tímamótum á mínum ferli. Ég hef ákveðið að gefa meiðslahrjáðum líkama mínum langþráða hvíld frá knattspyrnuiðkun og snúa mér að þjálfun. Þetta var erfið ákvörðun. Ég hef keppt í knattspyrnu allt mitt líf og ég mun sakna þess að ganga út á völlinn með númer á bakinu. En ég skil við KR í góðum höndum Rúnars, Péturs, Kristins, Baldurs, Jónasar og allra þeirra samherja sem ég spilaði við hlið undanfarin ár. Þeir eru sannir meistarar.

Ég vil þakka stuðningsmönnum KR fyrir frábæran stuðning síðustu fimm árin. Þeir tóku mér opnum örmum þegar ég gekk í raðir félagsins frá Akranesi. Fyrir það verð ég ævinlega þakklátur.

Það voru forréttindi að fá að spila í svörtu og hvítu.

Bjarni Guðjónsson #4






Fleiri fréttir

Sjá meira


×