Innlent

„Strætisvagnaferðir til og frá Reykjavík gætu hæglega lagst af í vetur“

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Íbúar Vesturlands eru uggandi út af almenningssamgöngunum.
Íbúar Vesturlands eru uggandi út af almenningssamgöngunum. mynd/hari
Strætisvagnaferðir á milli höfuðborgarsvæðisins og Vesturlands stefna í stöðvun og upplausn á Vesturlandi. Mikið tap er á rekstrinum og útilokað að sveitarfélögin geti staðið undir því. Þetta segir Gunnar Sigurðsson bæjarfulltrúi á Akranesi og formaður Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi í samtali við fréttavefinn Skessuhorn.

„Menn eru mjög uggandi út af almenningssamgöngunum. Það er mjög mikið tap á rekstri strætisvagna. Ögmundur Jónasson þáverandi innanríkisráðherra sagði þegar strætisvagnakerfið var tekið upp að þetta væri einkaleyfi. Sveitarfélögin fóru í þetta á þeim forsendum,“ segir Gunnar í viðtalinu en segir að nú sé komið á daginn að önnur rútufyrirtæki keyri í kapp við strætó og reyni að vera stundarfjórðungi á undan strætisvagninum til að ná í farþegana.

„Þetta er nú í málaferlum þar sem látið er reyna á hvort einkaleyfið standi. Almenningssamgöngurnar eru bara í uppnámi út af þessu tapi. Eina leiðin sem gengur vel er á Suðurlandi. Þar eru svo margir farþegar. Strætisvagnaferðir til og frá Reykjavík til staða eins og Akraness og Akureyrar gætu hæglega lagst af í vetur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×