Innlent

Hallinn langt umfram áætlanir

Halli ríkissjóðs á undanförnum árum hefur verið helmingi meiri en áætlanir fjárlaga gerðu ráð fyrir. Munurinn hleypur á tugum milljarða.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra mun kynna fyrsta fjárlagafrumvarp nýrrar ríkisstjórnar á morgun en þá kemur Alþingi saman á ný. Frumvarpið mun endurspegla helstu áherslur ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum til næstu ára.

Bjarni er þegar búinn að lýsa því yfir að hann muni boða breytingar á tekjuskattskerfinu sem á að framkvæma í áföngum á kjörtímabilinu. Skattar á láglauna- og millitekjufólk verða ekki hækkaðir og þá kom fram í fréttum Stöðvar 2 í gær að ekki stendur til að draga úr fjárframlögum vegna reksturs Landspítalans.

Ríkisstjórnin boðað strax í vor flatan 1,5% niðurskurð sem nær til allra ráðuneyta og eru mennta- og heilbrigðismál ekki undanskilin.

Á fyrstu sex mánuðum þessa árs var ríkissjóður rekinn með rúmlega 22 millljarða króna halla. Í fjárlögum er hins vegar gert ráð fyrir halla upp á tæpa 4 milljarða. Í raun hafa áætlanir um afkomu ríkissjóðs sjaldan verið í samræmi við endanlega niðurstöðu. Árið 2009 var gert ráð fyrir halla upp á rúma 153 milljarða en niðurstaðan varð þó betri eða 139 millljarða halli. Yfirleitt hefur hallinn þó verið meiri en vonir stóðu til. Árið 2010 var hallinn 25 milljarðar umfram áætlun. Árið 2011 munaði rúmum 50 milljörðum og í fyrra munaði fimmtán milljörðum.

Í heild hefur hallinn á síðustu þremur árum verið helmingi meiri en áætlanir fjárlaga gerðu ráð fyrir. Hagfræðideild Landsbankans kemst að þeirri niðurstöðu í nýlegri úttekt að lítið sé marka áætlun fjárlaga og þau séu í raun marklítið plagg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×