Innlent

Bakslag í réttindabaráttu samkynhneigðra

Karen Kjartansdóttir skrifar
Dóttir karlmanns sem kom út úr skápnum á miðjum aldri en svipti sig lífi skömmu á eftir segir viðbrögð trúaðra vina hans hafa sært hann mjög. Hún óttast að bakslag hafi orðið á réttindabaráttu samkynhneigðra og vill að fólk gæti orða sinna og virði fjölbreytni.

Í Regnbogamessu sem haldin var í gær í Laugarneskirkju var Aðalbjörg Stefanía, formaður sóknarnefndar kirkjunnar. Yfirskrift messunnar var „Fögnum fjölbreytileika - krefjumst mannréttinda“ í henni ræddi hún um föður sinn, Helga Jósefsson, sem rétt eins og hún var mjög trúaður. Hann svipti sig lífi árið 2005, skömmu eftir að hann opinberaði samkynheigð sína en hafði þá mætt mótlæti trúsystkina sinna í söfnuði sem hann tilheyrði. 

Afstaða kristinnar kirkju til samkynhneigðra hefur verið í umræðunni undanfarið í aðdraganda Hátíðar vonar. Aðalheiður segir sérstaklega skipta miklu máli hvernig valdamikið fólk líkt og leiðtogar, hvort sem þeir eru í trúarsöfnuðum eða annar staða beiti orðum sínum. 

Hún tekur samt skýrt fram að hún kenni trúsystkinum ekki um dauða hans. En vilji með þessu minna á mikilvægi þess að fólk virði fjölbreytileika manna og sýni hvert öðru stuðning. Trú hennar hafi heldur ekki dvínað eftir þessa atburði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×