Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl, einkunnir og myndir: Fylkir - Víkingur Ó. 2-1 | Víkingar fallnir

Kári Viðarsson skrifar
myndir / stefán
Fylkismenn bundu enda á Pepsideildarævintýri Víkings Ó í lautinni í dag með 2-1 sigri í dramatískum leik þar sem umdeildar ákvarðanir dómarans áttu stórann þátt í úrslitum leiksins.

Mikið jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik. Fylkismenn, með Viðar Örn Kjartansson fremstan í flokki, áttu bestu færin en Víkingsmenn voru meira með boltann án þess þó að skapa sér mikið. Fylkismenn voru næstir því að skora undir lok fyrri hálfleiks þegar Ásgeir Örn áttu frábærann sprett og komst í dauðafæri. Damir Muminovic, í vörn Víkinga gerði frábærlega í því að komast fyrir skotið sem virtist á leið í netið. Á eftir fylgdu tvö skot sem bæði fóru forgörðum. Stuttu síðar fékk Viðar Örn, sem óð í færum í dag, opinn skalla en setti boltann yfir. Staðan markalaus í hálfleik.

Hálfleiksræða Ásmundar Arnarsonar  hlýtur að hafa verið góð því Fylkismenn komu dýrvitlausir til leiks í byrjun síðari hálfleiks. Þeir settu Víkinga undir gríðarlega pressu og sköpuðu aragrúa af góðum færum. Varnarmúr gestanna brast á 62. mínútu leiksins þegar Viðar Örn kom knettinum í netið eftir aukaspyrnu Pablo Punyed af hægri kantinum. Í aðdraganda marksins virtist boltinn fara í höndina  á öðrum leikmanni Fylkis en dómarinn dæmdi ekkert. Vissulega umdeilanlegt en Fylkismenn engu að síður vel að markinu komnir.

VIkingar virtust eilítið slegnir eftir markið og aðeins 4 mínútum síðar var staðan orðin 2-0. Insa Bohigues braut þá á Viðari Erni innan teigs og vítaspyrna var dæmd. Emil Berger tók vítið og skoraði með góðu skoti efst í markhornið.

Nú áttuðu gestirnir sig á alvöru málsins og settu allan kraft í að reyna að jafna. Þeir settu mikla pressu á Fylki og sú pressa virtist hafa borið árangur á 74. mínútu þegar Guðmundur Magnússon fékk boltann í markteig Fylkis og þrumaði honum rakleiðis upp í þaknetið. Markið var dæmt af vegna rangstöðu. Við þetta ætlaði allt um koll að keyra og bæði stuðningsmenn Víkinga og leikmenn liðsins skildu hvort upp né niður í dómnum.

Víkingar náðu að minnka muninn á 83. mínútu þegar Eyþór Birgisson skoraði fínt mark eftir góða sókn. Leikurinn var bæði opinn og æsispennandi síðustu mínúturnar þar sem Víkingar reyndu allt sem þeir gátu til að knýja fram jafntefli. Fylkismenn vörðust vel og niðurstaðan í leiknum 2-1 sigur Fylkismanna sem tryggðu sér áframhaldandi veru í deild þeirra bestu á næsta ári. Víkingar eru hinsvegar fallnir og Pepsideildarævintýrinu því lokið í bili.

Ásmundur Arnarson: Við ætluðum að vera þolinmóðir„Við vissum að þeir yrðu að vinna þennan leik og því lögðum við upp með að vera þolinmóðir, bíða tækifæris og það skilaði sér að lokum.“

„Við gerðum svo nokkar taktískar breytingar í hálfleik sem virkuðu vel. Það skilaði sér í því að við opnuðum kantana betur og vorum að fá boltann í holunni. Það var fyrri hálfleikur seinni hálfleiks sem tryggði okkur þennan sigur,“ Sagði Ásmundur Arnarson, þjálfari Fylkis, kampakátur í leikslok.

Ejub Purisevic: Svona er fótboltinn„Mér fannst við spila vel, sérstaklega í fyrri hálfleik en í byrjun seinni hálfleiks náðum við bara ekki að koma boltanum í gott spil og þetta fór svona.“

Aðspurður um umdeilda dóma Erlends dómara hafði Ejub þetta að segja.

„Ég vil ekki tjá mig mikið um dómara en vil segja eitt. Það hefur lítið fallið með okkur í sumar bæði í þessum leik og öðrum. Gummi (Guðmundur Steinn) og strákarnir segja að hann hafi ekki komið við boltann og að þetta hafi því ekki verið rangstaða... En svona er fótboltinn stundum,“ Sagði Ejup Purisevic, þjálfari Víkings, daufur í bragði í leikslok.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×