Innlent

Alvarlegar athugasemdir við viðvörunarskilti á ensku

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Vegagerðin hefur ákveðið að gera breytingar á ljósaskiltum Vegagerðarinnar.
Vegagerðin hefur ákveðið að gera breytingar á ljósaskiltum Vegagerðarinnar. mynd/vegagerðin
Íslensk málnefnd gerir alvarlegar athugasemdir við þá ákvörðun Vegagerðarinnar að skipta íslensku út fyrir ensku á upplýsinga- og viðvörunarskiltum sínum við þjóðvegi landsins.

Vísir sagði frá þessum breytingum í vikunni.

Í fréttatilkynningu frá málnefndinni segir að ekki verði séð annað en að ákvörðunin sé brot á áttundu grein laga um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls.

Áttunda grein laganna hljóðar svo: „Íslenska er mál Alþingis, dómstóla, stjórnvalda, jafnt ríkis sem sveitarfélaga, skóla á öllum skólastigum og annarra stofnana sem hafa með höndum framkvæmdir og veita almannaþjónustu.“

Í tilkynningunni segir ennfremur að Vegagerðinni beri að veita almannaþjónustu sína á íslensku. Mikilvægar upplýsingar, svo sem viðvaranir vegna veðurs og færðar, eiga því lögum samkvæmt að vera á íslensku. Vega­gerðin hafi ekki leyfi til að hafa þær eingöngu á ensku.

Íslensk málnefnd óskar eftir því við Vegagerðina að farið verði að lögum í þessu efni. Rétt og skylt er að veita erlendum ferðamönnum góðar upplýsingar, en það megi ekki gerast á kostnað íslensku eða koma alveg í stað upplýsinga á íslensku. Finna þurfi leið til að flytja þessi boð bæði á íslensku og öðrum tungumálum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.