Innlent

„Er kjaftstopp yfir þessu heilbrigðiskerfi“

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Þegar hnútur finnst í brjósti getur verið erfitt að sætta sig við langa bið í myndatöku.
Þegar hnútur finnst í brjósti getur verið erfitt að sætta sig við langa bið í myndatöku.
Eitt myndatæki er til á Akureyri til að greina brjóstakrabbamein. Tækið bilaði í síðustu viku og ekki er vitað hvenær það kemst í lag.

Kona á Akureyri sem fann hnút í brjóstinu fyrir skömmu síðan sá fram á að bíða í að minnsta kosti mánuð eftir að fara í myndatöku en ákvað heldur að fara til Reykjavíkur í skoðun á eigin kostnað. Manni hennar finnst kerfið hafa brugðist þeim á þessu erfiða óvissutímabili.

Fyrir tveimur vikum fannst hnútur í brjósti konunnar og það blæddi úr því. Hún fékk strax staðfest hjá heimilislækni að þetta væri eitthvað sem þyrfti að skoða sem fyrst og hann pantaði tíma fyrir hana í myndatöku hjá Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri.

Þar er Krabbameinsfélagið með brjóstamyndatökur á tveggja vikna fresti. Konan fékk tíma eftir tvær vikur en þegar það kom að tímanum var hringt í konuna og henni sagt að tækið væri bilað og ekki vitað hvenær hún kæmist að.

Visir talaði við mann konunnar.

„Ég er alveg kjaftstopp yfir þessu heilbrigðiskerfi eftir að hafa kynnst hvernig það virkar í raun, þegar eitthvað alvarlegt bjátar á í fjölskyldunni. Konunni minni var sagt að það tæki jafnvel mánuð að fá tækið í lag. Maður hefur heyrt og séð ýmislegt þegar það kemur að krabbameini og hlutirnir geta verið fljótir að gerast. Mér finnst það allra hagur, líka ríkisins, að fá sem fyrst úr skorið um veikindi svo hægt sé að grípa inn í,“ segir maður konunnar.

Konan fékk símanúmer hjá Krabbameinsfélaginu í Reykjavík og var bent á að athuga með tíma þar en sagt að ferðin væri alfarið á hennar kostnað; flug, gisting og annað tengt ferðinni.

Hjónin gátu ekki hugsað sér að bíða í ótilgreindan tíma og pöntuðu því myndatöku hjá Krabbameinsfélaginu í Reykjavík.

„Það er ein græja á öllu Norðurlandi. Svo bilar hún og þá verður þetta bara vandamálið okkar. Er ekki hægt að reka þessa einu röntgenmyndavél skammlaust svo fólk sem býr hér fyrir norðan þurfi ekki að lifa í von og ótta svo vikum skiptir? Á meðan stækkar jafnvel meinið þar til það verður óviðráðanlegt og þá er ekki aftur snúið,“ segir maðurinn.

Vísir fékk staðfest að tækið er bilað á Akureyri og er ekki vitað hvenær það kemst í lag. Einnig var haft samband við Krabbameinsfélagið og kom þá í ljós að tæki eru einnig biluð í Reykjavík.

„Hér hafa tæki verið biluð í þrjár vikur. Það tekur tíma að panta varahluti erlendis frá og því getur orðið bið á að tækin komist í lag,“ segir Sigríður Þorsteinsdóttir hjá Krabbameinsfélaginu.

Hún tekur aftur á móti fram að ef konur hafi einkenni fái þær skoðun innan tveggja vikna. Aðrar sem eru einkennislausar og mæta í árlega skoðun bíða að jafnaði í fimm vikur og bitna tækjabilanir frekar á þeim hópi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×