Innlent

Þurfti að bíða ein í myrkrinu á meðan bílstjórinn fór í pásu

Boði Logason skrifar
Á þessari mynd, sem faðir stúlkunnar tók, sést vel hversu dimmt var þegar stúlkan beið ein í myrkrinu.
Á þessari mynd, sem faðir stúlkunnar tók, sést vel hversu dimmt var þegar stúlkan beið ein í myrkrinu. Mynd/aðsend
„Ég ætlaði varla að trúa þessu, mér hreinlega blöskraði,“ segir faðir tvítugrar stúlku sem var vísað út úr strætisvagni í Skerjafirðinum í kolniða myrkri í kvöld á meðan bílstjórinn fór í kaffipásu. 

Stúlkan var ein í vagninum á níunda tímanum í kvöld og þegar strætóinn kom að stoppistöðinni í Skerjafirðinum vísaði bílstjórinn henni út úr vagninum, þar sem hann væri að fara í kaffipásu. Sagði hann henni að vagninn héldi svo áfram leið sinni eftir hálftíma - á meðan þyrfti hún að bíða ein úti.

Faðir stúlkunnar hafði samband við fréttastofu í kvöld, en vildi ekki koma fram undir nafni.

„Þetta er alveg rosalega furðulegt. Þetta er endastöð, og hann á rétt á sínum kaffitíma sem er allt í góðu. En að láta hana bíða eina úti í kolsvörtu myrkrinu finnst mér út í hött," segir hann og bendir á að fá umferðarljós séu á þessu svæði, einungis svarta myrkur. 

„Hún hringdi í mig og ég kom og sótti hana eftir að hún var búin að bíða þarna í einhvern tíma. Ég ætlaði svo að ræða við bílstjórann en hann talaði ekki íslensku,“ segir hann.

Reyni Jónsson, framkvæmdstjóri Strætó, segist ekki þekkja þetta tiltekna atvik en það verði þó skoðað.

„Þegar vagn fer á endastöð, þá er almenna reglan sú að fólk fari út úr vagninum á meðan bílstjórinn fer í pásu. Ég get ekki svarað fyrir þetta ákveðna tilfelli,“ segir Reynir.

Á þessari mynd sést einnig hversu dimmt var á svæðinu.Mynd/aðsend



Fleiri fréttir

Sjá meira


×