Innlent

Doktor í íslensku gat ekki klárað samræmt próf

María Lilja Þrastardóttir skrifar
Vísir greindi frá því í vikunni að Hafsteinn Karlsson, skólastjóri og bæjarfulltúi í Kópavogi, segi áherslur samræmdra prófa í 10. bekk kolrangar og aðeins til þess fallnar að valda nemendum óþarfa kvíða. 

Hafsteinn vill prófin burt og langar að finna nýjar leiðir til þess að kanna stöðuna innan skólakerfisins. 

Baldur Hafstað, doktor í íslensku og prófessor emerita við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, segir það alvarlegt og vert að skoða ef áhugi barna á ungmenna á íslensku skaðist vegna rangra áherslna. Baldur vill þó ekki taka undir með Hafsteini um að prófin séu óþörf.

„Mér brá í brún þegar ég heyrði gagnrýni Hafsteins, skólastjóra. Hann talaði um að þetta væri bara bull og vitleysa. Það náttúrulega nær engri átt. Þetta er að mörgu leiti bara gott próf. Það er orðið mikið til bara textaskilningur og það finnst mér gott. Ég hjó eftir því að þetta er nú allt saman eftir karla. Það verða nú einhverjir móðgaðir útaf því,“ segir Baldur.

Baldur þreytti prófið og skemmst er frá því að segja að hann gat ekki svarað öllum spurningunum.

„Mér fannst sumar spurningarnar svolítið óljósar. Satt að segja átti ég erfitt með að svara tveimur þremur spurningum. Ég hugsa að ég fengi nú ekki tíu í þessu prófi, sjálfur.“

En hvað fannst krökkunum sjálfum?

„Íslenskan var náttúrulega fáránleg. Þar voru ljóð frá 1950," sagði Aron Breki Halldórsson, nemi í Salaskóla. 

„Lesskilningarnir voru rugl,“ segir Ingibjörg Arngrímsdóttir, nemi í Salaskóla.

„Mér finnst prófin óþarfi. Gera mann bara stressaðan og draga mann niður, einkunnirnar,“ segir Elísabet Einarsdóttir sem einnig er nemi í Salaskóla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×