Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl, einkunnir og myndir: KR-Fram 2-1 | KR setti met

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
KR-ingar lyfta bikarnum í dag.
KR-ingar lyfta bikarnum í dag. mynd/daníel
Íslandsmeistarar KR kláruðu tímabilið með stæl og settu um leið stigamet í efstu deild karla. KR vann nauman sigur á Fram í dag.

KR-ingar fóru gríðarlega vel af stað gegn sofandi Frömurum og fengu færi á fyrstu mínútunum til þess að komast yfir. Þeir nýttu þau ekki.

Það voru síðan gestirnir sem tóku forystuna. Viktor Bjarki komst inn í teiginn hægra megin. Alls ekki í sérstöku færi en honum var sléttsama og smurði boltann upp í fjærskeytin á sínum gamla heimavelli. Stórbrotið mark.

KR-ingar fengu sín færi í hálfleiknum en voru of værukærir er þeir komust í færi. Vantaði allt drápseðlil í þá. Þar af leiðandi leiddu Framarar í hálfleik.

Það ætlaði ekki að ganga hjá KR að skora þar til þeir fengu vítaspyrnu. Þá var ýtt á bak Grétars Sigfinns og víti dæmt.

Gary Martin tók vítið, spyrnan var skelfileg og Ögmundur varði. Martin var samt heppinn, náði frákastinu og náði með naumindum að koma boltanum í netið.

Martin lagði svo upp sigurmarkið fyrir varamanninn Emil Atlason. Átti magnaða sendingu í teiginn á Emil sem kláraði færið vel.

Leikurinn bar þess merki að lítið væri undir en það voru þó ágætis tilþrif á köflum. KR er verðskuldaður meistari.

Baldur: Mjög stoltur

Baldur Sigurðsson hefur átt frábært tímabil hjá KR og að margra mati besti leikmaður tímabilsins.

"Ég er að vinna þennan titil í annað skiptið og get ekki neitað því að það venst rosalega vel. Ég er hrikalega stoltur," sagði Mývetningurinn kátur.

"Við unnum tvöfalt 2011 og núna erum við að setja stigamet. Það var frábært að koma til baka í ár eftir vonbrigðatímabil í fyrra."

Brynjar Björn ætlar ekki að hætta

Brynjar Björn Gunnarsson snéri heim í uppeldisfélagið fyrir tímabilið eftir farsælan atvinnumannaferil.

"Þetta verður skemmtilegra með hverju árinu. Maður er aldrei of gamall til að vinna titla," sagði Brynjar en verður hann áfram með KR?

"Ég verð áfram eins lengi og ég get. Ég reikna með því að spila áfram. Það er engin ástæða til þess að hætta á meðan maður hefur gaman af þessu."

Bjarni: Rosalega sætt

"Þetta er yndislegt og eins sætt og það verður. Það eru forréttindi að fá að taka þátt í svona ævintýri," sagði Bjarni Guðjónsson, fyrirliði KR, eftir leikinn.

"Það er seigla og samheldni í þessu liði. Það er það sem skilar okkur þessum titli. Það eiga allir þátt í þessum titli og eiga hann líka skilinn.

"Titillinn 2011 var rosalega sætur út af því hvernig árið spilaðist. Þessi er einnig mjög sætur út af vonbrigðunum í fyrra. Það er ekki hægt að bera þessa titla saman. Þetta er missætt en frábært.

"KR hlýtur að halda áfram að styrkja sig og bæta sig. Mér finnst við hafa verið að gera það. Við hljótum að vilja gera betur í Evrópukeppni og halda áfram að keppa um þennan titil. Ég hef aldrei haft eins gaman af þessu og núna. Ég veit ekki hvað ég á að gera klukkan fimm annað en að fara á æfingu. Ef KR vill hafa mig áfram þá verð ég áfram."

Kjartan: Allt erfiðið er þess virði í dag

"Þessi titill lagar allt. Allt erfiðið og annað er þess virði þegar maður uppsker svona. Ég hef verið á annarri löppinni en samt getað hjálpað og það er gaman," sagði framherjinn Kjartan Henry Finnbogason glaðbeittur eftir leik.

"Ég get vonandi komið enn sterkari til leiks á næsta ári. Ég er á leið í aðgerð í næsta mánuði og krossa bara fingur að það muni allt ganga vel. Ég ætla að taka þann tíma sem þarf til þess að jafna mig.

"Nú verður fagnað vel með okkar stuðningsmönnum. Við erum búnir að bíða lengi eftir þessum degi. Nú lyftum við bikarnum og fáum okkur svo einn til tvo."

Emil: Ótrúleg sending hjá Gary

Emil Atlason var hetja KR í dag er hann kom af bekknum og skoraði sigurmark leiksins.

"Það var æðisleg tilfinning að skora sigurmarkið," sagði Emil og brosti allan hringinn.

"Ég hitti boltann vel en það var ótrúlegt hvernig Gary fór að því að koma boltanum til mín. Þetta var bara ótrúleg tilfinning."

Jónas Guðni: Ekkert mál að gíra sig í leikinn

"Þetta er æðislegt. Geðveik tilfinning," sagði brosmildur Jónas Guðni Sævarsson eftir leikinn í dag.

"Að sjálfsögðu vildum við vinna með alla þessa frábæru áhorfendur á bak við okkur. Það var ekkert mál að gíra sig upp fyrir þennan leik," sagði Jónas Guðni en voru þeir að reyna að hjálpa Gary Martin að skora?

"Nei, við vildum bara spila okkar leik og ef við gerðum það þá myndi hann fá sín færi."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×