Innlent

Gestir í sundbíói teknir í "security check“

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Myndirnar úr grínbíóinu tók Ólöf Kristín Helgadóttir. Höfundur mynda úr sundbíói er Loïc Chetail.
Myndirnar úr grínbíóinu tók Ólöf Kristín Helgadóttir. Höfundur mynda úr sundbíói er Loïc Chetail.
Bergur Ebbi Benediktsson, skemmtikraftur og kynningarfulltrúi RIFF, segir stemninguna hafa verið góða í Tjarnabíó á föstudaginn þegar viðburðurinn Grínbíó RIFF fór fram fyrir fullum sal af fólki.  „Kvikmyndin Nýtt Líf var sýnd með skýringum,“ útskýrir Bergur Ebbi. „Sviðslistafólkið Saga Garðarsdóttir, Ragnar Ísleifur Bragason og Dóri DNA voru að greina myndina jafnóðum.“ Þráinn Bertelsson og Karl Ágúst Úlfsson sátu fyrir svörum áður en myndin var sýnd en það var Ásgrímur Sverrisson, kvikmyndagerðarmaður, sem að spurði þá spjörunum úr.

Ragnar Ísleifur Bragason og Saga Garðarsdóttir skemmtu áhorfendum yfir myndinni Nýtt líf.
Jóhann Alfreð Kristinsson, viðburðastjóri yfir sérviðburðum á RIFF, segist lúinn eftir helgina en að allt hafi heppnast vel. Allt frá opnunarhófinu til grínbíós til sundbíós. „Hugmyndin um grínbíóið var sú að þetta yrði svona „leikhús meets bíó.“ Þetta er þekkt erlendis, það er að grínistar og skemmtikraftar taki sig til og gefi komment á myndir.“ Kveikjan að hugmyndinni um grínbíóið var sú að kvikmyndin Nýtt Líf á 30 ára afmæli á morgun. „Þetta var hugsað sem tribute til hennar,“ segir Jóhann. „Við einbeitum okkur rosalega mikið af erlendum myndum á hátíðinni, erum þó með íslenskan stuttmyndaflokk, en það hefur bara verið ein og ein íslensk mynd í fullri lengd,“ útskýrir Jóhann Alfreð. „Við viljum auðvitað rækta okkar kvikmyndasögu og þetta var leið til þess.“ Hann segist hafa verið afar sáttur með grínbíóið og að í skoðun sé að endurtaka það að ári, jafnvel með öðru sniði.

Sundbíóið, sem haldið hefur verið undanfarin 5 ár, var með stærra sniði en vanalega. „Við sýndum kvikmyndina Airplane núna og fengum WOW air með okkur í lið,“ segir Jóhann Alfreð. „Þau unnu þetta með okkur. Voru með flugliða á svæðinu, það var security check þegar þú labbaðir inn í laugina, tilkynningar frá flugstjóra um að það væri komið að brottför og flugliðar færðu gestum veitingar á meðan á sýningu myndarinnar stóð. Við sköpuðum svona flugvélastemningu.“

Kvikmyndahátíðin er rétt tæplega hálfnuð og til stendur að halda stóra tónleika á föstudaginn í Gamla bíó. „Þá verður hljóðlausa myndin Days of Grey sýnd en Hjaltalín samdi tjónlist við hana. Á föstudaginn mun svo Hjaltalín flytja tónlistina live á meðan á myndinni stendur.“ Hann segir að ekki sé uppselt á myndina eins og er en að salan hafi farið vel af stað. „Við vonumst til að það verði fullt út úr dyrum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×