Innlent

"Vítahringur manneklu, álags og óánægju“

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Formaður Félags íslenskra lyflækna og yfirlæknir nýrnasjúkdóma segir að meiriháttar átak þurfi til að snúa við vanda lyflækningasviðs Landspítalans. Þetta snúist ekki lengur bara um peninga heldur langvinnan vanda inni á spítalanum og neikvætt andrúmsloft sem þar hafi fengið að gerjast.

Það virðist hafa myndast samstaða í opinberri umræðu um vanda Landspítalans. Þetta birtist í viðhorfum stjórnenda spítalans, heilbrigðisstarfsmanna og stjórnmálamanna.

Stöð 2 hefur að undanförnu fjallað um vanda lyflækningasviðsins sem er eitt mikilvægasta svið Landspítalans en léleg mönnun lækna sviðsins þykir í senn óboðleg og óforsvaranleg að mati þeirra sem þar starfa.

Vandi lyflækningasviðs Landspítalans er löngu hættur að snúast eingöngu um aukið fjármagn heldur snýst um viðvarandi gremju og óviðunandi starfsaðstæður starfsmanna. Þetta er mat Runólfs Pálssonar, formanns Félags íslenskra lyflækna, en hann er sérfræðingur í nýrnasjúkdómum á Landspítalanum.

Vandinn aldrei meiri

Runólfur segist aldrei hafa áður séð vandann eins og hann birtist núna. „Staðan núna er sú að það er miklu umfangsmeiri og alvarlegri vandi sem steðjar að heldur en áður hefur verið. Það hefur skapast vítahringur manneklu, óhóflegs verkefnaálags, óánægju og lélegs starfsanda,“ segir Runólfur.

Hann segir að staðan eigi sér langan aðdraganda. „Við höfum ekki hlúð nægilega vel að þeim dýrmæta mannauði sem við höfum yfir að ráða í formi sérfræðilækna og ungra lækna. Fólk er farið að leita annað.“

Endalaust að slökkva elda 

Helga Ágústa Sigurjónsdóttir lyf- og innkyrtlalæknir tekur í sama streng. „Við erum endalaust að slökkva elda og erum búin að vera að gera það í marga mánuði. Þetta sumar var hreint ótrúlegt, hvernig það var leyst. Sérfræðiþjónustan er í húfi. Við erum eingöngu að sinna því sem verður ekki geymt til morguns. Göngudeildarstarfsemin er í húfi,“ segir hún.

Helga Ágústa segir að sérfræðingar geti ekki sinnt verkefnum sínum eins og að leiðbeina unglæknum og sérfræðiráðgjöf inni á öðrum deildum. Þannig þurfa sérfræðingar á óskyldu sviði að sinna ráðgjöf við t.d skurðaðgerðir en geti það ekki vegna manneklu. „Á meðan við festumst í deildarlæknavinnu í ljósi skorts á þeim starfskrafti þá er augljóst hvað er í húfi annars staðar í húsinu,“ segir Helga.

Hún segir vantraust í garð yfirstjórnar spítalans og heilbrigðisyfirvalda. „Það er algjörlega augljóst mál að það er forgangsatriði að reyna að fjölga unglæknum á lyflækningasviði. Hvernig við gerum það eins og staðan er í dag er ekki algjörlega augljóst mál. Núna þarf fyrst og fremst að einbeita sér að því að halda þeim læknum sem eru í dag. Það eru margir að íhuga uppsagnir eins og ástandið er orðið þar sem traust okkar til breytinga ofan frá er ekki ríkjandi meðal okkar lengur. Okkur finnst eins og tíminn hafi verið notaður í annað en aðgerðir síðustu mánuði þátt fyrir endurteknar umleitanir okkar til að fá fólk til þess að gera eitthvað.“


Tengdar fréttir

Verðum að loka Hörpu - ef það er það sem þarf

Kári Stefánsson, læknir og forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir heilbrigðiskerfið hafa verið holað að innan og hann þekki dæmi um ótímabæran dauða sjúklinga vegna þessa.

Landspítalinn kominn í þrot

Læknar á Landsspítalanum segja spítalann kominn í þrot og grípa þurfi til aðgerða nú þegar til að styrkja starfsemi hans. Skipulag spítalans bitni á sjúklingum og starfsfólki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×