Innlent

Verðum að loka Hörpu - ef það er það sem þarf

Jakob Bjarnar skrifar
Kári Stefánsson segir að ef til standi að skera niður um 1,5 prósent í heilbrigðiskerfinu, þá flokkist það sem glæpur.
Kári Stefánsson segir að ef til standi að skera niður um 1,5 prósent í heilbrigðiskerfinu, þá flokkist það sem glæpur.
Kári Stefánsson, læknir og forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir heilbrigðiskerfið hafa verið holað að innan og hann þekki dæmi um ótímabæran dauða sjúklinga vegna þessa.

Kári segir að Íslendingar sitji uppi með heilbrigðiskerfi sem ekki getur sinnt hlutverki sínu og vegna þessa sé að fólk sé farið að deyja fyrr en ella. Ótímabær dauðdagi vegna lamaðs heilbrigðiskerfis. Kári telur sig geta staðið við það og þetta séu ekki of stór orð, komandi frá lækni; orð í meðallagi vaxin.

„Við höfum skorið mjög niður í heilbrigðiskerfinu. Við erum búin að hola að innan Landspítalann þannig að hann er illa í stakk búinn til að sinna sínu hlutverki. Hann er það illa mannaður eins og stendur að þó að fólkið sem vinnur þar sé alveg frábært; við erum með alveg afburðagóða lækna, við erum með afburðagott hjúkrunarfólk, við erum með fólk sem sinnir sjúklingum af samviskusemi, hjartahlýju og afburðar getu, þá er bara orðið svo fátt að allskonar hlutir sem týnast og gerast ekki. Ef að menn halda því fram að það sé hægt að skera svona niður í heilbrigðiskerfinu án þess að það bitni á sjúklingum, þá er eitthvað að hjá þessu fólki,“ segir Kári.

Landspítalinn hefur verið holaður að innan og ef fólk heldur að það bitni ekki á sjúklingum er eitthvað að því.
Ef heilbrigðiskerfið skiptir einhverju máli, ef læknisfræðin og heilbrigðiskerfið hjálpar til við að líkna og bjarga lífum hlýtur það að vega að vellíðan fólks og vega að lífi fólks ef við styðjum ekki heilbrigðiskerfið almennilega. „Ég held að þetta sé afskaplega lógískt. Í annan stað þá veit ég af nokkrum tilfellum þar sem alveg er ljóst að betur mátti fara í umönnun sjúklinga, þar sem þetta endaði ekki á besta veg. Ég er nokkuð viss um að ef við hefðum verið með fullan mannskap, fullt lið, þá hefði þetta þróast öðru vísi. Það er ekki nokkur möguleiki, þegar við erum með illa tækjum væddan spítala, illa tækum vætt sjúkrahús, þegar við erum ekki með nýjustu og bestu tæki, leyfum okkur ekki einu sinni að nota nýjustu og bestu lyf, og þegar við erum ekki með nema hálfskipað lið... hvernig í ósköpunum getið þið reiknað með því að það sé hægt að sinna hlutverki spítalans almennilega? Og ekki gleyma því að hlutverk spítalans er að líkna, er að lækna, sjá til þess að fólk deyi ekki úr alvarlegum sjúkdómum. Þegar þú sinnir þessu ekki þá hlýtur fólk að þjást, þá hlýtur fólk að halda áfram að vera lasið, þá hlýtur fólk að deyja. Þetta er ekkert flókið.“

Kári telur forgangsröðun stjórnvalda brenglaða, þó skiljanleg sé í því moldviðri sem þyrlaðist upp eftir hrunið. Hann nefnir dæmi í sjö liðum, ríkisframkvæmdir sem farið var í og segir mikilvægt að fjárfesta ekki í því sem við höfum ekki efni á: Hörpu, 700 fermetra byggingu í Vatnajökulsþjóðgarði, stórt hús yfir Náttúrufræðistofnun uppi í Heiðmörk, Hof á Akureyri, Vaðlaheiðargöng, hús yfir stofnun norrænna fræða við Háskóla Íslands og fé til uppbyggingar kísilverksmiðju á Bakka.

„Ég held að það hafi verið afskaplega erfitt að vera stjórnmálamaður og sitja ríkisstjórn á þessum tíma. Erfitt að sjá út úr þessum moðreyk sem þyrlaðist upp eftir hrunið. Þetta góða fólk hefði viljað taka aðrar ákvarðanir. En, nú sitjum við uppi með þetta: Austur-þýskar alþýðuhallir voru reistar en heilbrigðiskerfið holað að innan.“

Ósanngjarnt og ljótt að láta fólk veslast upp og deyja af sjúkdómum sínum án þess að fá almennilega aðhlynningu til þess eins að við getum farið í Hörpuna og hlustað á góða tónlist.
Nú er ný ríkisstjórn komin og hana vill Kári vekja upp og beina sjónum hennar að því að ákvarðanir hennar varðandi heilbrigðiskerfið eru grafalvarlegar – hafa með líf og dauða að gera. „Að ætla sér að fara að skera núna niður í heilbrigðiskerfinu um 1,5 prósent hlýtur að flokkast sem glæpur.“

Kári segir nýju ríkisstjórnina skakklappast af stað. Hún hefur farið býsna hægt af stað, að sögn Kára, sem þó er bjartsýnn – hann reiknar með því að ríkisstjórnin hætti við niðurskurðaráform og jafnvel veiti meira fé til heilbrigðiskerfisins. Bull og vitleysa er að við höfum ekki efni á þessu. En þá er mikilvægt að gæta þess að fjárfesta ekki í því sem við höfum ekki efni á.

„Til dæmis Harpan sem ég er að agnúast út í er staður sem ég fer mjög oft í. Ég fer alla þá tónleika Sinfóníuhljómsveitarinnar sem ég kemst á, mér finnst býsna gaman að koma þangað; þetta fallegur, skemmtilegur staður en mér finnst þetta staður sem við höfum ekki efni á. Eitt af því sem við gætum gert væri bara að loka Hörpunni núna. Þá myndi sparast rekstrarkostnaður. Ef það er það sem til þarf til að hægt sé að hlúa almennilega að slösuðu og lösnu fólki á Íslandi. Þá eigum við að gera það. Þó menning sé mjög mikilvæg; mikilvægt að fólk eigi aðgang að góðri tónlist, bókmenntum og leiklist – ég get ekki hugsað mér líf án þess að eiga aðgang að slíku – þá verðum við að forgangsraða. Ég held því fram að það sé ósanngjarnt og ljótt að láta fólk veslast upp og deyja af sjúkdómum sínum án þess að fá almennilega aðhlynningu til þess eins að við getum farið í Hörpuna og hlustað á góða tónlist.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×