Íslenski boltinn

Víkingur skoraði sextán | Fjölnir hélt toppsætinu og KF féll

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Úr leik Fjölnis og Selfoss í Grafarvoginum í dag.
Úr leik Fjölnis og Selfoss í Grafarvoginum í dag. Mynd/Pjetur
Víkingur vann sinn langstærsta sigur í íslenskri deildarkeppni þegar liðið lagði botnlið Völsungs 16-0 í 1. deild karla í dag. Mörkin sextán gætu reynst mikilvæg fyrir lokaumferðina.

Aron Elís Þrándarson og Hjörtur Júlíus Hjartarson skoruðu fjögur mörk hvor í slátruninni á Húsvíkingum. Víkingar leiddu 7-0 eftir 39 mínútur og undir lok fyrri hálfleiks fengu bræðurnir í liði Völsungs, Guðmundur Óli og Hrannar Björn Steingrímsson rautt spjald.

Níu leikmenn Völsungs þurftu að horfa á Víkinga skora níu mörk í síðari hálfleik. Mörkin gætu reynst mikilvæg því Víkingur situr í 2. sæti deildarinnar með betri markamun en Grindavík sem er í 3. sæti og Haukar sem eru í fimmta sæti deildarinnar með 37 stig.

Víkingur og Grindavík eru í harðri baráttu um sæti í efstu deild.
Grindvíkingar unnu sömuleiðis stórsigur á KF á Ólafsfjarðarvelli sem féllu fyrir vikið í 2. deild. Heimamenn misstu mann af velli á 37. mínútu og gestirnir röðuð inn mörkum. Igor Stanojevic var iðinn við kolann og skoraði að innsta kosti þrjú mörk í 7-0 sigri Reyknesinga.

Fjölnir er í toppsætinu fyrir lokaumerðina eftir 3-0 heimasigur á Selfossi. Þórir Guðjónsson skoraði tvö mörk fyrir Grafarvogsliðið og Ragnar Leósson eitt.

Fjölnir hefur 40 stig og þar með eins stigs forskot á Víking, Grindavík og Hauka fyrir lokaumferðina.

Haukar unnu 3-1 heimasigur á Tindstóli á Ásvöllum. Hafsteinn Briem og Hilmar Geir Eiðsson skoruðu snemma í síðari hálfleik eftir markalausan fyrri hálfleik. Haukar eru í harðri baráttu um sæti í efstu deild og sitja í 4. sæti með jafnmörg stig og Víkingur og Grindavík en verri markamun. Stólarnir hafa að litlu að keppa í neðri hlutanum.

Djúpmenn eiga enn von um sæti í efstu deild.Heimasíða BÍ/Bolungarvíkur
BÍ/Bolungarvík á enn von á sæti í efstu deild eftir 3-2 sigur á Leikni. Nigel Quashie var á meðal markaskorara hjá Djúpmönnum í dag. Þeir sitja í 5. sæti með 37 stig. Leiknir er um miðja deild og hefur að litlu að keppa.

Þá vann KA 3-1 sigur á Þrótti norðan heiða. Þróttarar gátu fallið fyrir leikinn en tap KF þýðir að sæti þeirra í deildinni er tryggt. KA siglir lygnan sjó um miðja deild.

Leikirnir í lokaumferðinni á laugardaginn klukkan 14:

Grindavík - KA

Leiknir - Fjölnir

Þróttur - Víkingur

Selfoss - KF

Tindastóll - Bí/Bolungarvík

Völsungur - Haukar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×