Íslenski boltinn

„Mótanefnd KSÍ þarf að lesa betur í veðurspár“

Sigmar Sigfússon á Akranesi skrifar
Mynd/Daníel
„Þessi ákvörðun hefði getað legið fyrir í gær og þá átti að fresta leiknum,“ sagði Jónas Gestur Jónasson, formaður Víkings Ólafsvíkur, í samtali við Vísi í dag.

Öllum þremur leikjum dagsins í Pepsi-deild karla var frestað vegna veðurs. Viðureign Þórs og Keflavíkur, KR og Fylkis auk viðureignar ÍA og Víkings Ólafsvíkur á Skipaskaga.

„Það er ekki hægt að spila í svona veðri. Boltinn yrði meira og minna útaf vellinum, eintóm innköst og  lítið um fótbolta svo ég er sáttur með að leiknum hafi verið frestað,“ sagði Jónas Gestur. Hann var þó ekki sáttur við vinnubrögð mótanefndar.

„Við vorum í sambandi við mótanefnd KSÍ í gær og það var alltaf vitað að það yrði vitlaust veður hérna seinnipartinn í dag. Allar spár bentu til þess og við eigum mjög góða veðurfræðinga á Íslandi. Ég held að þessi ákvörðun hafi getað legið fyrir í gær og þá átti að fresta leiknum,“ segir Jónas Gestur.

„Liðið hefði þá ekki þurft að leggja ferðalagið á sig með tilheyrandi kostnaði. Sömuleiðis hefur síminn ekki stoppað hjá mér í dag þar sem fólk frá Ólafsvík er að spyrja um ástandið. Fólkið var lagt af stað á leikinn gegn öllum spám veðurfræðinga um að halda sér innandyra í dag,“

Ekki liggur ljóst fyrir hvenær leikurinn verður spilaður. Viðureign KR og Fylkis mun þó fara fram á morgun ef veður leyfir.

„Þetta er mikill óþarfa kostnaður fyrir okkur og ég held að mótanefndin þurfi að skoða sín vinnubröð betur og lesa betur í veðurspár.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×